
Helsta ágreiningsmál þeirra hefur verið 8,6 milljarða evra fjármögnun jármbrautarlínu fyrir háhraðalestir milli Tórínó á Ítalíu og Lyon í Frakklandi. Þingið, sem er í sumarfríi, kom saman á miðvikudaginn til að kjósa um málið og kusu stjórnarflokkarnir hvor gegn öðrum. Það má segja að það hafi verið kornið sem fyllti mælinn en flokkarnir hafa margoft deilt um útgjöld ríkisins til hinna ýmsu málaflokka síðan þeir mynduðu saman ríkisstjórn í maí á síðasta ári.
Luigi Di Maio, formaður Fimmstjórnuhreyfingarinnar, segist ekki óttast kosningar í haust þrátt fyrir að skoðanakannanir bendi til þess að Salvini og Norðurbandalagið muni vinna stórsigur í kosningunum. Fimmstjörnuhreyfingin hefur nú fleiri þingsæti en gangi kannanir eftir mun Norðurbandalagið fá tvöfalt meira fylgi en samstarfsflokkurinn og fara með völdin þegar kemur að stjórnarmyndunarviðræðum. Salvini hefur raunar nokkrum sinnum ýjað að því að nýta sér aukinn meðbyr og slíta samstarfinu.
Búast má við því að ítalska þingið komi saman í næstu viku og fari fram á að ríkisstjórnarsamstarfið verði formlega leyst upp en Sergio Mattarella, forseti landsins, er sá eini sem getur leyst upp þingið. Í kjölfarið yrði að öllum líkindum kosið í október.