Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ríkissaksóknari: Atli fái réttindin ekki aftur

20.01.2016 - 18:27
Atli Helgason í handjárnum eftir að hann var handtekinn grunaður um manndráp.
 Mynd: RÚV
Ríkissaksóknari krafðist þess fyrir dómi í dag að Atli Helgason fengi ekki málflutningsréttindi sín að nýju. Atli, sem var sviptur réttindunum þegar hann var dæmdur fyrir manndráp árið 2001, hefur sótt um að fá þau aftur. Það getur hann eftir að hafa fengið uppreist æru fyrir áramót.

Við fyrirtöku málsins í dag kom fram krafa ákæruvaldsins um að Atli fengi réttindin ekki aftur. Björgvin Jónsson, lögmaður Atla, segir að ágreiningurinn snúi að því hvort Lögmannafélagið geti staðið í vegi fyrir því að Atli fái réttindin. Félagið hefur lýst því yfir að Atli þurfi meðmæli félagsins og að taka lögmannspróf að nýju til að fá réttindin. Björgvin telur að það dugi hins vegar Atla að hafa fengið uppreist æru. Málflutningur í málinu fer fram 1. febrúar.