Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ríkislögreglustjóri geti ekki setið áfram

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Páll Magnússon, formaður allsherjar og menntamálanefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri geti ekki setið áfram sem ríkislögreglustjóri. Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, tekur undir þetta og segir aðgerðir um sameiningu embætta geti tekið allt of langan tíma.

Haraldur neitar að víkja en dómsmálaráðherra skoðar nú að sameina embætti Ríkislögreglustjóra og Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Páll sagði í Morgunútvarpinu á Rás2 í morgun að það sé grafalvarlegt að traust sé farið. Lengi hafi verið vitað að það sé urgur innan lögreglunnar út af ríkislögreglustjóra. „Síðan kemur þetta allt upp á yfirborðið eftir þetta forkostulega viðtal sem hann fer í. Grundvallaratriðið í þessu er að það að þetta er algjörlega óboðleg staða og það er algjörlega óboðlegt að ríkislögreglustjóri segi þá hluti sem hann sagði í viðtalinu - að hann skuli gefa það til kynna að hann sitji inni með einhverja vitneskju um spillingu í lögreglunni sem hann ætli ekki að opinbera nema eitthvað annað gerist.“

Hann segir hins vegar að það sé ekki auðvelt að losa sig við embættismann. „Ég geri bara ráð fyrir því án þess að vita það að það hafi verið farið yfir alla kosti varðandi ríkislögreglustjórann sjálfan. Hann mætti nú með lögfræðing á þennan fund sem hann átti með ráðherra í gær þannig ég geri ráð fyrir því að hann sé svo sem brynjaður í réttindum sínum hvað varðar brottvikningu, að víkja til hliðar tímabundið eða fara í leyfi eða guð má vita hvað. Sem betur fer er það ekki svoleiðis að ríkislögreglustjóri er ekki eiginlegur yfirmaður hinna lögreglustjóra í landinu. Ég held að það gerist að sjálfu sér miðað við aðdraganda málsins og miðað við þær aðgerðir sem ráðherra skoðar þá ýtist nú ríkislögreglustjóri sjálfkrafa til hliðar.“

Helga Vala tekur undir þetta. „Við þurfum að láta þetta kerfi virka og þetta varðar almannaheill. Það segir sig sjálft að einhver þarf að stíga til hliðar, annað hvort hann eða allir lögreglustjórar og lögreglumenn á Íslandi. Mér finnst þetta reiknidæmi frekar einfalt ef ég á að segja eins og er.“

Hún vísar í lögreglulögin og segist hafa áhyggjur af því að dómsmálaráðherra muni taka þetta þing og jafnvel næsta í að breyta þeim lögum enda geti tekið langan tíma að breyta lögum. „Varðandi næstu skref, þá eru hér lögreglulög og það er í þeim þar sem skýrt er kveðið á um hvernig skipa á málum í lögreglunni. Þá veltir maður fyrir sér hvort að dómsmálaráðherra sjái það fyrir sér að vera allt þetta þing og mögulega næsta þing að stokka upp í kerfinu af því það tekur bara tíma að breyta lögum. Ég hef smá áhyggjur af þessari stöðu.“

milla.osk's picture
Milla Ósk Magnúsdóttir
Fréttastofa RÚV