Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ríkið með leynireikning í SpKef

10.04.2014 - 22:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjármálaráðuneytið opnaði reikning í Sparisjóði Keflavíkur stuttu eftir fall stóru bankanna í október 2008, og lagði þangað inn skattgreiðslur sveitarfélaga á Suðurnesjum. Þetta var gert til þess að láta líta út fyrir að Sparisjóðurinn hefði meira laust fé til umráða en raunin var.

Um einn milljarð króna var að ræða en þá átti Sparisjóðurinn ekki nema rúmar 200 milljónir króna í laust fé. Tinna Finnbogadóttir nefndarmaður í rannsóknarnefnd um fall Sparisjóðanna var spurð um þessi tíðindi í skýrslu nefndarinnar í Kastljósi í kvöld. Hún sagði þetta hafa vakið athygli nefndarinnar enda væri þetta óvenjulegt og vekti spurningar.

Um var að ræða fjármagnstekjuskatt af söluhagnaði sveitarfélaga á Suðurnesjum vegna sölu þeirra á HS Orku, sem geymdur var á reikningum sveitarfélaganna í Sparisjóði Keflavíkur, en átti að skila til Seðlabankans. Sparisjóðurinn var hins vegar í þeirri stöðu að hann gat ekki greitt upphæðina. Aðgerðin átti einungis að vera til skamms tíma en Sparisjóðurinn átti eftir að færa skattgreiðslur annarra aðila inn á þennan reikning í heimildarleysi. Það var svo ekki fyrr en nokkrum mánuðum síðar sem skattinum var skilað í ríkissjóð eftir hótanir Fjármálaráðuneytisins um að fá liðsinni Fjármálaeftirlitsins við að endurheimta hluta fjárins. Ríkið átti hins vegar eftir að eiga rúma 3 milljarða inni á reikningi í Sparisjóðnum allt þar til hann féll ári síðar.

Í skýrslu um fall Sparisjóðanna segir:

„Fjármálaráðuneytið heimilaði stofnun reikningsins að höfðu samráði við Seðlabanka Íslands og gaf Fjársýslu ríkisins fyrirmæli um að setja sig í samband við sparisjóðinn 30. október 2008. Í tölvupósti daginn eftir frá skrifstofustjóra fjárreiðu- og eignaskrifstofu fjármálaráðuneytisins til fjársýslustjóra segir:

Sparisjóðurinn í Keflavík [hefur] farið þess á leit við ríkissjóð að hann heimili að stofnaður verði innlánsreikningur ríkissjóðs hjá sparisjóðnum. Ástæða beiðninnar er að andvirði álagðs fjármagnstekjuskatts sveitarfélaga á Suðurnesjum vegna sölu á hlut þeirra í HS [Orku] er varðveittur á innlánsreikningum í sparisjóðnum. Um er að ræða fjárhæð sem nemur nálægt einum milljarði króna og vegna lausafjárvanda sjóðsins mun úttekt þessa fjár hafa veruleg áhrif á lausafjárstöðu hans. Á vegum fjármálaráðuneytis, Seðlabanka, FME og viðskiptaráðuneytis er nú unnið að úttekt á stöðu sparisjóða í landinu. Fjármálaráðuneytið hefur því ákveðið að höfðu samráði við Seðlabankann að verða við þessari beiðni sjóðsins á meðan beðið er niðurstöðu fyrrgreinds vinnuhóps um málefni sparisjóðanna. Gjalddagi fjármagnstekjuskattsins er í dag og er óskað eftir að Fjársýslan annist frágang þessa máls í samráði við sparisjóðsstjórann.

Í skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni vegna málsins kom fram að fjármálaráðuneytið hefði metið stöðu sparisjóðsins þannig að um lausafjárvanda væri að ræða en ekki eignavanda. Opinber pólitískur vilji hefði staðið til þess að halda sparisjóðakerfinu gangandi og því hefði verið ákveðið að grípa til þessarar ráðstöfunar til að brúa bilið þar til viðvarandi lausn á lausafjárvanda sparisjóðsins lægi fyrir. Seðlabanki Íslands hafði þegar gengið eins langt og heimildir bankans leyfðu í lánveitingum til sparisjóðsins. Ríkissjóður stofnaði reikning hjá Sparisjóðnum í Keflavík vegna þessa og barst fyrsta greiðsla inn á reikninginn 28. nóvember 2008. Í lok nóvember 2008 átti Sparisjóðurinn í Keflavík laust fé sem nam 79,4 milljónum króna, að meðtöldu því fé sem ríkissjóður átti á reikningum hjá sparisjóðnum og greitt hafði verið inn 28. nóvember sama ár. Þeir fjármunir hefðu að öllu réttu átt að greiðast til Seðlabanka Íslands.

Í lok desember 2008 átti Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. að standa skil á samningsgreiðslum vegna sölu á eignum ríkisins á flugvallarsvæðinu upp á tæpar 1.230 milljónir króna til ríkissjóðs. Félagið átti viðskiptareikninga í Sparisjóðnum í Keflavík en í stað þess að greiða féð til Seðlabanka Íslands var greiðslan færð á reikning ríkissjóðs hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Staðan á reikningnum 31. desember 2008 nam tæpum 2 milljörðum króna.

Í janúar 2009 átti Sparisjóðurinn í Keflavík að standa skil á afdregnum skatti af fjármagnstekjum viðskiptavina sparisjóðsins upp á tæpar 929 milljónir króna. Samkvæmt bankayfirliti var gerð færsla í fjárhagskerfi sparisjóðsins þar sem fjárhæðin var bókuð inn á reikning ríkissjóðs hjá Sparisjóðnum í Keflavík til þess að greiða upphæðina. Þórhallur Arason, skrifstofustjóri hjá fjármálaráðuneytinu, gerði fyrir hönd ráðuneytisins munnlegt samkomulag við forsvarsmenn sparisjóðsins um að haga málum með þessum hætti. Vörsluskatturinn var því ekki greiddur úr sparisjóðnum heldur bókaður sem innlánsskuldbinding við ríkissjóð. Þegar einkahlutafélag eitt átti að greiða fjármagnstekjuskatt til ríkisins var greiðslan millifærð af reikningi þess hjá sparisjóðnum inn á innlánsreikning ríkissjóðs. Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. greiddi í desember 2009 aðra samningsgreiðslu, rúmar 1.217 milljónir króna, inn á innlánsreikninginn.

Heimild fjármálaráðuneytisins frá 30. október 2008 átti einungis að taka til greiðslu sveitarfélaga á fjármagnstekjuskatti í nóvember og desember 2008. Samningsgreiðslur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar ehf., greiðsla á staðgreiðslu fjármagnstekjuskatts og greiðsla einkahlutafélagsins inn á innlánsreikning ríkissjóðs í Sparisjóðnum í Keflavík voru gerðar án heimildar fjármálaráðuneytisins.221

Í lok febrúar 2009 fór Fjársýsla ríkisins þess á leit við Sparisjóðinn í Keflavík að 300 milljónir króna yrðu færðar inn á reikning ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands. Í tölvuskeyti Fjársýslu ríkisins til sparisjóðsins sagði að fyrirmælin væru send í samráði við fjármálaráðuneytið um að færa niður inneign á reikningi ríkissjóðs í Sparisjóðnum í Keflavík. Samið hafði verið um að sjóðurinn færði 300 milljónir króna vikulega af reikningnum til Seðlabanka Íslands. Engar greiðslur höfðu borist 1. apríl 2009 og í kjölfarið sendi fjársýslustjóri tölvupóst til sparisjóðsstjóra þar sem hann ítrekaði að greiðslur hefðu ekki borist þrátt fyrir ósk ríkissjóðs um slíkt. Í niðurlagi póstsins sagði:

Heyri ég ekki frá þér mjög fljótlega hlýtur að koma til skoðunar hjá okkur að hafa samband við Fjármálaeftirlitið og óska eftir þeirra afskiptum af málinu.

Millifærslan var framkvæmd samdægurs. Greiðslan fór inn á innlánsreikning Þróunarfélags Keflavíkur hjá sparisjóðnum og hélst féð því áfram innan sparisjóðsins. Tvær færslur fóru inn á reikning ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands í maí 2009, samtals 300 milljónir króna. Inneign ríkissjóðs á reikningnum nam rúmum 3,1 milljarði króna í lok árs 2009. Engin úttekt var af reikningnum frá árslokum 2009 fram að falli sparisjóðsins 22. apríl 2010

[email protected]