Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ríkið mátti leggja 76 prósenta toll á franskar

18.01.2018 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Hæstiréttur staðfesti í dag tvo dóma Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem tekist var á um lögmæti þess að ríkið leggi 76 prósenta toll á innflutning á frönskum kartöflum. Fyrirtækin Innnes og Hagar stefndu íslenska ríkinu þar sem þau töldu skattheimtuna ganga lengra en svo að hún stæðist sjónarmið um jafnræði og meðalhóf. Því hafnaði ríkið, sem og þeirri kröfu fyrirtækjanna tveggja að ríkið myndi endurgreiða þeim tollinn. Samanlagt vildu fyrirtækin fá 100 milljónir í sinn hlut.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ákvörðun um 76 prósenta toll á franskar kartöflur rúmist innan þeirra marka sem stjórnarskráin setur Alþingi. Þess vegna stæðist tollheimtan lög og ekki væri ástæða til að endurgreiða fyrirtækjunum tollinn.

Forsvarsmenn fyrirtækjanna kröfðust þess til vara að tollheimta af innfluttum kartöflum skyldi miðast við fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert við Kanada og Perú. Þar er kveðið á um 46 prósenta toll af innflutningi franskra kartafla en ekki 76 prósent. Hæstiréttur hafnaði þessari kröfu. Rökstuðningurinn var sá að fyrirtækin væru í raun að krefjast þess að dómstólar ákvæðu tollinn í stað stjórnvalda. Það væri ekki á þeirra valdi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV