Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Ríkið má ekki ráðstafa fé eftir geðþótta

19.06.2013 - 18:47
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögmaður auglýsingastofunnar Jónsson og Le'macks segir dóm Hæstaréttar staðfesta að ekki megi ráðstafa opinberu fé eftir geðþótta. Íslenska ríkið var í dag dæmt til að greiða auglýsingastofunni fimm milljónir í skaðabætur vegna markaðsherferðarinnar Inspired by Iceland.

Skömmu eftir að eldgosið í Eyjafjallajökli hófst árið 2010 ákvað iðnaðarráðuneytið að hefja auglýsingaherferð um allan heim. Tilgangurinn var að bæta orðspor Íslands sem ferðamannalands, en talið var að það hefði skaðast. Send voru bréf á fimm stærstu auglýsingastofur landsins, og þær beðnar að gera tilboð í verkið innan þriggja sólarhringa. Alls átti að setja 700 milljónir í herferðina og því til mikils að vinna.

Auglýsingastofan Jónsson & Le'macks lagði mikla vinnu í tilboðsgerðina, og setti önnur verkefni til hliðar. Þegar stofurnar fimm höfðu skilað inn tilboðum, hætti iðnaðarráðuneytið við útboðið og hóf annað ferli sem endaði með auglýsingaherferðinni Inspired by Iceland. Þetta voru forsvarsmenn Jónsson & Le'macks ósáttir við og sendu iðnaðarráðuneytinu reikning upp á fimm milljónir króna, vegna þeirrar vinnu sem hafði verið lögð í tilboðsgerðina. 

Ráðuneytið neitaði að greiða, og höfðaði stofan því mál á hendur íslenska ríkinu. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi ríkinu í vil í nóvember, en Hæstiréttur snéri þeim dómi við í dag og dæmdi ríkið til að greiða stofunni bætur. 

Daníel Isebarn Ágústsson, lögmaður auglýsingastofunnar segir að vinnuaðferð starfshópsins hafi engu leyti staðist lög um opinber innkaup, farið hafi verið á svig við nokkrar reglur. „Og ríkið sýndi með engum hætti fram á að þeirra innkaupaaðferðir hefðu verið réttlætanlegar.“

Þannig segir Daníel að ríkið hefði til dæmis átt að gefa öllum auglýsingastofum kost á að taka þátt í útboðinu, ekki bara fimm þeirra. Daníel vill þó ekki segja dóminn áfellisdóm yfir starfsaðferðum iðnaðarráðuneytisins. „Þarna er bara staðfest með skýrum hætti að opinberu fé eigi að ráðstafa samkvæmt lögum en ekki eftir einhverjum geðþótta.“