Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Ríkið kaupir Geysissvæðið

07.10.2016 - 15:16
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Íslenska ríkið hefur komist að samkomulagi við Landeigendafélag Geysis um kaup á öllum eignarhlutum landeigendafélagsins innan girðingar á Geysissvæðinu. Þar með er bundinn endi á áratugalangan ágreining um verndun og uppbyggingu svæðisins.

Í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu segir að svæðið innan girðingar á Geysi sé um það bil 19,9 hektarar að stærð. Innan þess svæðis á ríkið sem séreign um það bil 2,3 hektara lands fyrir miðju svæðisins en þar eru hverirnir Geysir, Strokkur, Blesi og Óþerrishola.  Það sem eftir stendur eða um 17,6 ha. er í sameign ríkisins og Landeigendafélagsins. 

Kaupverð eignarhlutans verður lagt í mat þriggja dómkvaddra matsmanna en við undirritun samningsins tók ríkið formlega við umráðum alls lands sameigenda innan girðingar við Geysi. „Samningurinn markar tímamót því hann auðveldar heildstæða uppbyggingu á svæðinu í samræmi við niðurstöðu í hugmyndasamkeppni um Geysissvæðið sem haldin var fyrir nokkrum misserum. “

Landeigendur við Geysi hófu fyrir tveimur árum að innheimta aðgangseyri en sú gjaldtaka var harðlega gagnrýnd. Í þeim hópi var Ögmundur Jónasson, þingmaður VG. Þá vakti það talsverða athygli þegar leiðsögumaður sagaði í sundur keðju sem lokaði efra hliðinu að Geysissvæðinu - hann sagði það rétt sinn að fara frjáls um svæðið. 

Hæstiréttur komst svo að þeirri niðurstöðu í fyrra  að gjaldtakan væri óheimil - með henni væri brotið gegn réttindum ríkisins sem meðeiganda. Landeigendur hafa sagt nauðsynlegt að ráðast í endurbætur á Geysissvæðinu og að ríkið hafi verið dragbítur í þeim efnum sem hafi bitnað á umhirðu svæðisins. 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV