Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ríkið hafnar öllum kröfum Guðjóns

Mynd með færslu
Guðjón Skarphéðinsson Mynd: RÚV
Íslenska ríkið hafnar öllum bótakröfum Guðjóns Skarphéðinssonar vegna Geirfinnsmálsins og krefst fullrar sýknu og greiðslu málskostnaðar af hálfu Guðjóns. Fréttablaðið greinir frá þessu. Lögmaður Guðjóns segir ríkisvaldið traðka á mannréttindum borgaranna og ákveðið í að reyna allt til að komast upp með dómsmorðin sem framin voru í málinu.

Guðjón stefndi ríkinu í júní og krafðist bóta eftir að sýknudómur var kveðinn upp í hæstarétti. Í greinargerð ríkisins, sem lögð var fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær, kemur fram að ríkið hafni öllum málatilbúnaði Guðjóns, bæði á grundvelli fyrningar og eins því, að Guðjón hafi sjálfur átt hlut að þeim aðgerðum, sem hann reisi bótakröfur sínar á.

Með þessu vísar ríkislögmaður til lýsinga á málsatvikum í dómi hæstaréttar frá 1980. Sýknudómur Hæstaréttar í fyrra breyti engu þar um. Þá hafnar ríkislögmaður því að gögn á borð við sérfræðiálit um falskar játningar hafi nokkuð sönnunargildi hvað þetta varðar.

Í samtali við Fréttablaðið segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns,  afstöðu ríkisstjórnarinnar endurspeglast í þessum kröfum og röksemdum ríkislögmanns, enda fái hann fyrirmæli sín frá ríkisstjórninni. Afstaðan sé sú að hinir sýknuðu „eigi ekki neinn rétt á skaðabótum úr hendi ríkisins fyrir þá meingerð sem ríkið olli þeim með refsidómum sem eru ígildi dómsmorða," segir Ragnar. Ríkisstjórnin ætli sér augljóslega „að komast upp með dómsmorðin án nokkurra afleiðinga fyrir ríkið og af fullkomnu ábyrgðarleysi."