
Ríkið eigi 34-40% í Landsbankanum
Í frétt á vef ráðuneytisins kemur fram að stefnan gildi nú fyrir fjögur fjármálafyrirtæki: Landsbankann, Íslandsbanka, Arion banka og Sparisjóð Austurlands. Fyrri eigendastefna hafi endurspeglað stöðuna eftir endurreisn fjármálakerfisins en nú sé staðan gjörbreytt til hins betra. Einnig hafi eignarhald ríkisins í fjármálafyrirtækjum tekið grundvallarbreytingum og á ríkið nú meirihluta bankakerfisins.
Í stefnudrögunum eru skilgreind markmið um einstök fjármálafyrirtæki í eigu ríkisins og eignarhald þeirra. Ríkið á til að mynda 98,2% í Landsbankanum. Þar er stefnt að því að ríkið eigi verulegan hlut til langframa, eða 34-40%, til að stuðla að stöðugleika í fjármálakerfi landsins og tryggja nauðsynlega innviði þess. Að öðru leyti verði hluturinn seldur þegar skilyrðin eru hagfelld.
Ríkið á Íslandsbanka að öllu leyti og er stefnt að því að selja hann í heild sinni þegar skilyrðing verða hagfelld. Þá á ríkið 13% hlut í Arionbanka auk skuldabréf með veði í hinum 87%. Sá hlutur rennur til ríkisins ef skuldabréfið verður ekki greitt upp í lok janúar á næsta ári. Ríkið ætlar að selja sinn hlut í þeim banka þegar skilyrðin verða hagfelld. Það sama á við um tæplega helmings hlut ríkisins í Sparisjóði Austurlands.
Umsagnarfrestur um stefnudrögin er til 10. mars.