Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Ríkið brjóti á lögbundnum rétti taugasjúklinga

02.09.2018 - 15:28
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Velferðarráðuneytið hefur hafnað beiðni Önnu Björnsdóttur taugalæknis um endurgreiðslu sjúkrakostnaðar af hendi ríkisins til þeirra sjúklinga sem vísað er til hennar. Anna hyggst opna læknastofu á morgun en eins og fjallað var um í fréttum RÚV í júní var umsókn Önnu að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands, SÍ, og sjálfstætt starfandi sérfræðilækna hafnað.

Embætti landlæknis ákvað í kjölfarið að gera úttekt á aðgengi að göngudeildarþjónustu taugalækna. Kom fram í úttektinni að bið eftir tíma hjá taugalæknum er langt fram yfir þau viðmiðunarmörk sem embættið hefur sett. Biðtími hefur lengst verulega og álag á starfandi taugalækna aukist. Sjálfstætt starfandi taugalæknum hefur fækkað á undanförnum árum og eru þeir nú fimm.

Í viðmiðum Embættis landlæknis er miðað við að ásættanleg bið eftir skoðun hjá sérfræðingi sé 30 dagar. Biðtími hjá þremur af þessum fimm læknum er fjórir til sex mánuðir. Aðgengi sjúklinga að sérfræðiþjónustu taugalækna er verulega ábótavant, samkvæmt skýrslu Landlæknisembættisins.

Meginþungi göngudeildarþjónustu á herðum sjálfstætt starfandi taugalækna

Þá kemur fram í úttektinni að árið 2017 sinntu sérfræðingar í 9,1 stöðugildi á Landspítalanum 2.449 sjúklingum á göngudeild. Á sama tíma sinntu fimm sjálfstætt starfandi sérfræðingar 4.199 sjúklingum á göngudeild. Skýringin á því er að sérfræðilæknar sinna umfangsmikilli legudeildar- og ráðgjafaþjónustu við innliggjandi sjúklinga Landspítalans. Í úttektinni segir þó að ljóst sé að meginþungi göngudeildarþjónustu sé á herðum sjálfstætt starfandi taugalækna.

Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir á Landspítalanum, hefur sagt að þær hugmyndir ráðherra um að efla göngudeildarþjónustu spítalans séu algjörlega óraunhæfar vegna aðstöðuleysis á sjúkrahúsinu. „Hvað varðar þverfaglegar áherslur þá er það þannig að fyrir lækna sem sinna parkinson-sjúklingum hentar stofurekstur einkar vel - enda greining oftast byggð á viðtali og skoðun,“ sagði Tómas jafnframt í samtali við fréttastofu í sumar.

Mynd með færslu
Anna Björnsdóttir, sérfræðingur í taugalækningum. Mynd: Skjáskot - RÚV

Á skjön við lögbundinn rétt Íslendinga til sjúkratrygginga

„Í ljósi nýrra upplýsinga um skort á taugalæknum fór forstjóri Sjúkratrygginga formlega fram á við heilbrigðsráðherra þann 20. ágúst að fá að taka umsókn mína um aðild að rammasamningnum til efnislegrar meðferðar,“ segir Anna. „Með bréfi ráðherra til Sjúkratrygginga þann 24. ágúst er þessu erindi hafnað. Ekki er tekið fram með hvaða hætti ráðuneytið hyggst bæta aðgengi taugasjúklinga að þjónustu taugalækna, utan þess að ráðuneytið hafi beint þeim almennu tilmælum til Landspítala að efla göngudeildarþjónustu taugalækna,“ bætir hún við.

Þá segir Anna að þegar hafi um 100 sjúklingum verið vísað á stofu til hennar til sérfræðiálits. „Þessa sjúklinga mun ég sjá á næsta mánuðinum hafi þeir efni á að borga lækniskostnað úr eigin vasa án aðkomu sjúkratrygginga,“ segir hún. Bendir hún á að allir þessir sjúklingar séu annað hvort með parkinson-sjúkdóm sem heyrir undir sérfræðiþekkingu hennar eða verið vísað til hennar af öðrum læknum. Sjúklingurinn þarf svo að greiða fullt verð án greiðsluþátttöku ríkisins.

„Á Íslandi er því orðið tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem hinir efnameiri, sem hafa efni á að borga heimsóknina að fullu, fá þjónustu en aðrir þurfa að bíða óásættanlega lengi. Samkvæmt áliti Sjúkratrygginga Íslands er þetta á skjön við lögbundinn rétt Íslendinga til sjúkratrygginga. Ég tel að ríkið brjóti alvarlega á lögbundnum rétti sjúklinga með taugasjúkdóma til viðeigandi heilbrigðisþjónustu,“ segir Anna.