
Ríkið braut á Bjarna Ármannssyni
Er ríkinu gert að greiða Bjarna 5.000 evrur í bætur auk vaxta.
Greiddi skatta auk álags
Upphaf málsins má rekja til þess að skattrannsóknarstjóri tilkynnti Bjarna í ársbyrjun 2012 að skattar hans fyrir árin 2007-2009 hafi verið endurákvarðaðir vegna vantalinna fjármagnstekna í tengslum við sölu hans á hlutabréfum sem hann eignaðist við starfslok hjá Glitni. Bjarni greiddi skattana auk 25 prósenta álags sem honum var gert að greiða.
Ákærður fyrir skattalagabrot
Skattrannsóknarstjóri tilkynnti síðar málið til embættis sérstaks saksóknara sem ákærði Bjarna fyrir skattalagabrot. Hann var dæmdur í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi í héraði fyrir það brot og til að greiða 36 milljóna króna sekt. Hæstiréttur staðfesti síðan dóminn en þyngdi refsinguna í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi.
Bjarni skaut málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu þar sem hann taldi að með þessu hefði honum verið refsað tvisvar fyrir sama brot. Dómstóllinn féllst á þetta og hefur nú kveðið á um að ríkið hafi brotið á Bjarna og verði því að greiða honum bætur.
Dómurinn í dag er sambærilegur dómi Mannréttindadómstólsins í máli Jóns Ásgeirs Jóhannessonar gegn ríkinu frá í maí 2017.