Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Ríkið bótaskylt í máli Páls Sverrissonar

27.09.2014 - 18:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Íslenska ríkið hefur viðurkennt bótaskyldu í máli Páls Sverrissonar. Læknir nýtti sér upplýsingar úr sjúkraskrá Páls, þar sem kom fram að hann væri haldinn vitrænni skerðingu. Lögmaður Páls segir þetta staðfesta að ólögmætt sé að fara í sjúkraskrá í öðrum tilgangi en veita sjúklingi meðferð.

Árið 2011 slasaðist Páll Sverrisson þegar hann rann til í hálku á leið sinni til vinnu hjá Síldarvinnslunni á Neskaupsstað. Páll leitaði til tveggja lækna vegna áverka sinna, annars vegar í Neskaupsstað og hins vegar í Reykjavík. Læknarnir voru ósammála um hvaða meðferð skyldi beita og annar sakaði hinn síðar um að hafa kallað sig fyllibyttu.

Málið fór fyrir siðanefnd Læknafélagsins og við meðferð þess sótti annar læknanna upplýsingar um Pál úr sjúkraskrá og notaði sér til varnar í málinu. Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að sá læknir hefði gerst brotlegur við siðareglur lækna og var hann því áminntur. Sú áminning var síðar dregin til baka þar sem læknirinn þótti ekki hafa fengið viðhlítandi andmælarétt við meðferð málsins.

Úrskurðurinn var birtur í Læknablaðinu. Nafn Páls kom ekki fram en ljóst var að upplýsingar höfðu verið sóttar í sjúkraskrá án hans leyfis. Þar kom meðal annars fram að Páll væri með „vitræna skerðingu“. Læknafélaginu og ritsjóra Læknablaðsins var gert að greiða Páli 300 þúsund krónur í bætur vegna birtingarinnar. Þá kærði Páll lækninn, en lögreglan lét málið niður falla, og ríkissaksóknari staðfesti þá niðurstöðu.

Umboðsmaður Alþingis komst síðar að því að verulegir annmarkar hefðu verið á rannsókn málsins. Páll gafst hins vegar ekki upp og fól lögmanni að gera kröfu á hendur íslenska ríkinu vegna uppflettinga læknisins í sjúkraskránni. Ríkislögmaður hefur nú komist að niðurstöðu að íslenska ríkið sé bótaskylt í málinu.

„Og það er niðurstaðan og þannig stendur málið núna. Það sem kemur í kjölfarið eru samningaviðræður um fjárhæð bótanna og þetta mál er á því stigi núna,“ segir Hrefna Dögg Gunnarsdóttir, lögmaður Páls.

Páll hefur staðið í þessu máli í mörg ár — er þetta mikill sigur fyrir Pál?

„Já þetta er gríðarleg viðurkenning á því að það sé ólögmætt að fara í sjúkraskrá einstaklings í óskildum tilgangi, öðrum en að veita sjúklingi meðferð. Og hann er búinn að fara til Umboðsmanns Alþingis og fá þaðan mörg álit vegna ýmissa stofnana vegna málsins. Þannig að já, þetta er gríðarlegur sigur fyrir hann,“ segir Hrefna Dögg.

[email protected]