Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Ríkasta prósentið á nær fjórðung auðsins

20.01.2015 - 20:00
Mynd:  / 
Ríkasta eitt prósent íslenskra skattgreiðenda á hátt í fjórðung alls auðs landsmanna. Ríkustu tíu prósentin eiga næstum þrjá fjórðu.

Ríkasta eitt prósent jarðarbúa á nú næstum helming alls auðs mannskyns og í nýrri skýrslu bresku hjálparsamtakanna Oxfam, sem var kynnt í gær, er því haldið fram að á næsta ári verði eignir þessa eins prósents orðnar meiri en samanlagðar eigur hinna 99 prósentanna.

Á Íslandi eru hlutföllin auðvitað ekki jafn afgerandi. Ef við skiptum landsmönnum í tíu jafn stóra hópa sést að meira en 30% Íslendinga eiga ekki neitt, það er skulda meira en þau eiga.

Auðurinn fer svo stigvaxandi, en tekur kipp þegar komið er í ríkasta hópinn. Þessar 19 þúsund fjölskyldur og einstaklingar eiga samtals tæplega 1.500 milljarða króna, eða tæplega 73% alls auðs landsmanna. Til að komast í þennan hóp þarf fjölskyldan eða einstaklingurinn að eiga að minnsta kosti 37,5 milljónir í hreina eign.

Sú fjölskylda eða sá einstaklingur sem er akkúrat í miðjunni á um 750 þúsund krónur umfram skuldir, sem dugar ekki einu sinni fyrir miðlungs notuðum bíl.

En ríkasta eitt prósentið, um 1.900 skattgreiðendur, á að meðaltali 244 milljónir króna umfram skuldir, þótt þeir allra ríkustu í þessum hópi eigi auðvitað miklu meira. Hin margumrædda 1% á tæplega 23% alls auðs landsmanna.

Drjúgur hluti eigna efnafólks er í verðbréfum, en í þessum gögnum eru þau aðeins skráð á nafnverði, sem oft er aðeins brot af raunverulegu verðmæti þeirra. Því má leiða líkur að því að eignir þeirra ríkustu séu verulega vanmetnar, og munurinn á ríkum og fátækum því enn meiri.

[email protected]