Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rigning tefur kornslátt í Eyjafirði

20.09.2018 - 18:13
Mynd með færslu
 Mynd: Samúel Örn Erlingsson - RÚV
Allur sláttur og þresking liggur nú niðri hjá kornbændum í Eyjafirði. Þeir hafa lítið getað athafnað sig eftir að tók að rigna í byrjun vikunnar. Útlitið er heldur betra í næstu viku, en þeir óttast tjón ef það fer að snjóa.

Eyfirskir kornbændur voru flestir komnir nokkuð af stað við að þreskja en neyddust til að hætta þegar fór að rigna.

Mjög erfitt að athafna sig við kornslátt í bleytu

Hermann Ingi Gunnarsson, bóndi á Klauf, segir mjög erfitt að athafna sig við kornslátt ef rignir mikið. „Já, það þarf að vera orðið alveg þurrt á. Auðvitað má vera smá raki í því, en til þess að þetta gangi eitthvað þá þarf þetta að vera þurrt. Líka að akrarnir séu færir vélum, en eftir svona mikla rigningu sem búið er að vera þá fara akrarnir bara í drullusvað." 

Blautt korn klessist í vélunum

Þá klessist blautt korn í vélunum og verður ekki hægt að þreskja, auk þess sem erfiðara er að þurrka kornið ef bleytan er mikil. „Og það verður bara allt miklu erfiðara."

Vonar að ástandið lagist eftir helgi

En veðurspáin er að batna segir Hermann en verði slydda snjókoma, leggist kornið í jörðina, og þá sé voðinn vís. „Frostið mun ekki hafa nein áhrif á okkur. Það er allt í lagi að fá frost ef það er ekki snjókoma. Þannig að ég er vongóður um að þetta sleppi núna, nema ef það yrði snjókoma á morgun, þá kannski gæti orðið töluvert tjón."

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV