Rigning gladdi veiðibændur í Borgarfirði

25.06.2019 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Vatnsbúskapur laxveiðiáa hefur verið með minnsta móti í byrjun sumars og laxveiðin sömuleiðis lítil vegna mikilla þurrka. Rigning gladdi veiðibændur í Borgarfirði í morgun sem eru bjartsýnir á veiðisumarið þrátt fyrir slæma byrjun.

„Hér hefur ekki ringt síðan um miðjan maí,“ segir Guðrún Sigurjónsdóttir, formaður Veiðifélags Norðurár í Borgarfirði. „Það er búið að vera erfitt að horfa á vatnið minnka en laxveiðin er ein af undirstöðu atvinnugreinum hér í Borgarfirði. En núna rignir og það spáir rigningu öðru hvoru út vikuna. Þessi úrkoma mun lífga upp á ána, hún verður vatnsmeiri og laxarnir fara að veiðast um alla á.“

Þurrkarnir hafa verið sérstaklega slæmir í Borgarfirði. Þar hefur gróður skrælnað og slökkvilið í viðbragðsstöðu vegna hættu á gróðureldum. Guðrún segir gróðurinn strax hafa glæðst við vætuna í morgun. „Það er einhvern veginn bara strax við þessa litlu úrkomu sem er búin að vera í morgun þá er allt annar litur á gróðrinum og allt að frískast við.“

Sleppa því að mæta

Heyrst hefur af laxveiðimönnum sem hafa hreinlega sleppt því að mæta í veiði þó þeir hafi keypt veiðileyfi vegna þess að óvenjulítið vatn er í veiðiám. Ástandið hefur verið slæmt víðar en á Vesturlandi og Pétur Pétursson, umsjónarmaður í Vatnsdalsá, segist ekki muna eftir jafn litlu rennsli í ánni.

„Það er eiginlega í sögulegu lágmarki, vatnið í ánni. En við erum þó ívið skárri en margir hverjir aðrir. Það eru einhverjir fjórir rúmmetrar í ánni sem að koma niður. Normið á henni eru svona átta rúmmetrar,“ segir Pétur.

Hann telur að veiðimenn hafi hugsanlega haft áhyggjur af lítilli veiði of snemma enda sé eðlilegt að lítið veiðist í upphafi sumars og meira þegar líður á. Það hafi hins vegar verið skynsamleg ákvörðun veiðimanna að sleppa því hreinlega að mæta og spara sér um leið matar- og gistikostnað.

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands Veiðifélaga, segir að veiðimenn séu bjartsýnir og vanir því að fiska ekki; Það fylgi veiðiskapnum. Ástandið nú sé þó óvenjulegt.

„Já, ég held ég mundi nú segja það að þessir þurrkar sem eru á Vesturlandi eru óvenjulegir og óvenjuharðir og ég held að menn hafi sjaldan séð jafn erfiðar aðstæður. Ég held að það sé óhætt að segja það,“ segir Jón Helgi.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi