Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rigning gladdi veiðibændur í Borgarfirði

25.06.2019 - 13:41
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Vatnsbúskapur laxveiðiáa hefur verið með minnsta móti í byrjun sumars og laxveiðin sömuleiðis lítil vegna mikilla þurrka. Rigning gladdi veiðibændur í Borgarfirði í morgun sem eru bjartsýnir á veiðisumarið þrátt fyrir slæma byrjun.

„Hér hefur ekki ringt síðan um miðjan maí,“ segir Guðrún Sigurjónsdóttir, formaður Veiðifélags Norðurár í Borgarfirði. „Það er búið að vera erfitt að horfa á vatnið minnka en laxveiðin er ein af undirstöðu atvinnugreinum hér í Borgarfirði. En núna rignir og það spáir rigningu öðru hvoru út vikuna. Þessi úrkoma mun lífga upp á ána, hún verður vatnsmeiri og laxarnir fara að veiðast um alla á.“

Þurrkarnir hafa verið sérstaklega slæmir í Borgarfirði. Þar hefur gróður skrælnað og slökkvilið í viðbragðsstöðu vegna hættu á gróðureldum. Guðrún segir gróðurinn strax hafa glæðst við vætuna í morgun. „Það er einhvern veginn bara strax við þessa litlu úrkomu sem er búin að vera í morgun þá er allt annar litur á gróðrinum og allt að frískast við.“

Sleppa því að mæta

Heyrst hefur af laxveiðimönnum sem hafa hreinlega sleppt því að mæta í veiði þó þeir hafi keypt veiðileyfi vegna þess að óvenjulítið vatn er í veiðiám. Ástandið hefur verið slæmt víðar en á Vesturlandi og Pétur Pétursson, umsjónarmaður í Vatnsdalsá, segist ekki muna eftir jafn litlu rennsli í ánni.

„Það er eiginlega í sögulegu lágmarki, vatnið í ánni. En við erum þó ívið skárri en margir hverjir aðrir. Það eru einhverjir fjórir rúmmetrar í ánni sem að koma niður. Normið á henni eru svona átta rúmmetrar,“ segir Pétur.

Hann telur að veiðimenn hafi hugsanlega haft áhyggjur af lítilli veiði of snemma enda sé eðlilegt að lítið veiðist í upphafi sumars og meira þegar líður á. Það hafi hins vegar verið skynsamleg ákvörðun veiðimanna að sleppa því hreinlega að mæta og spara sér um leið matar- og gistikostnað.

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands Veiðifélaga, segir að veiðimenn séu bjartsýnir og vanir því að fiska ekki; Það fylgi veiðiskapnum. Ástandið nú sé þó óvenjulegt.

„Já, ég held ég mundi nú segja það að þessir þurrkar sem eru á Vesturlandi eru óvenjulegir og óvenjuharðir og ég held að menn hafi sjaldan séð jafn erfiðar aðstæður. Ég held að það sé óhætt að segja það,“ segir Jón Helgi.