Ríflega helmingur finnur lítið fyrir umhverfiskvíða

07.02.2020 - 07:25
Mynd með færslu
 Mynd: Matt Hardy - Pexels
Nærri 56 prósent aðspurðra segjast kvíða lítið fyrir loftslagsvanda. Konur finna frekar fyrir kvíða en karlar og yngra fólk frekar en eldra. Þá finna þeir sem eru meira menntaðir frekar fyrir miklum umhverfiskvíða en þeir sem hafa minni menntun. Þetta kemur fram í nýjum þjóðarpúlsi Gallup.

Fimmtungur fullorðinna Íslendinga segist í þjóðarpúlsinum almennt finna fyrir umhverfiskvíða, það er kvíða sem tengist neikvæðum umhverfisáhrifum af mannavöldum, eins og mengun eða loftslagsbreytingum. Rúmlega helmingur segist finna fyrir litlum umhverfiskvíða og nærri fjórðungur hvorki finna fyrir miklum né litlum kvíða. 

Rflega helmingur landsmanna hefur þó áhyggjur af þeim afleiðingum sem loftslagsbreytingar kunna að hafa á þá og fjölskyldur þeirra, samkvæmt nýrri umhverfiskönnun Gallup sem verður kynnt síðar í mánuðinum, segir í tilkynningu frá Gallup. 

25 prósent kvenna sögðust finna fyrir miklum umhverfiskvíða en 17 prósent karla. Einnig var þónokkur munur á milli yngsta aldurshópsins, fólks yngra en 30 ára og elsta hópsins þar sem fólk er 60 ára eða eldra. 35 prósent yngsta aldurshópsins sögðust vera með mikinn umhverfiskvíða en í elsta hópnum var hlutfallið var 16 prósent. Háskólamenntaðir finna frekar fyrir miklum umhverfiskvíða en þeir sem hafa framhaldsskóla- eða grunnskólapróf. 

Miðflokksfólk með lítinn loftslagskvíða

Þegar litið er til stjórnmálaskoðana er áberandi minnstur loftslagskvíði hjá þeim sem segjast myndu kjósa Miðflokkinn. Þar segjast rétt rúmlega 80 prósent kvíða þessu lítið. Næst minnsti loftslagskvíðinn mældist hjá stuðningsfólki Sjálfstæðisflokksins, eða 67 prósent. Stuðningsfólk Pírata, Vinstri grænna eða Samfylkingarinnar eru hins vegar líklegri til að finna fyrir miklum umhverfiskvíða. Hlutfallið var 39 prósent hjá þeim sem sögðust myndu kjósa Pírata, 36 prósent hjá Vinstri grænum og 33 prósent hjá Samfylkingu. 

Könnunin var netkönnun, gerð dagana 22. - 30. janúar 2020. Þátttökuhlutfall var 54,4%, úrtaksstærð 1.567 einstaklingar 18 ára eða eldri af öllu landinu valdir af handahófi úr Viðhorfahópi Gallup.

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi