Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Ríða út á kvenréttindadaginn

21.06.2015 - 18:20
Mynd með færslu
 Mynd: Edda Páls
Mynd með færslu
 Mynd: Edda Páls
Mynd með færslu
 Mynd: Edda Páls
„Hér í sveitinni hittast konurnar á hverju einasta ári til að fara í sérstakan kvennaútreiðartúr. Við erum búnar að gera þetta á hverju einasta ári í rúm þrjátíu ár," segir Álfheiður Viðarsdóttir á Ásum í Skeiða- og Gnúpverjahreppi. Hún hélt í ár utan um hina svonefndu kvennareið í hreppnum.

Árð 1984 tóku konurnar í Gnúpverjahreppi sig saman og fóru í útreiðartúr á kvenréttindadeginum. Síðan þá er kvennareiðin orðin að nokkurs konar sveitarhefð og 19. júní ár hvert hópast konurnar í sveitinni saman og ríða út.

„Við höfum aldrei misst út eitt einasta skipti," segir Álfheiður. „Reyndar var hrossasótt hérna eitt árið svo við gátum ekki riðið út. En þá fórum við bara í göngutúr í staðinn."

Fjölgar í hópnum
„Þetta er bara svona skemmtireið. Nokkurra klukkutíma reiðtúr. Svo borðum við saman eftir á," segir Álfheiður sem bauð konunum heim til sín í mat að útreiðartúrnum loknum. Konurnar í sveitinni skiptast á að halda utan um kvennareiðina og að þessu sinni var komið að Álfheiði.

„Í ár voru þetta 40 konur, sem er eiginlega bara metþátttaka," segir Álfheiður og útskýrir að hópurinn hafi vaxið dálítið á síðustu árum. „Þær sem hafa farið áður eru byrjaðar að taka vinkonur sínar með. Það er alveg sjálfsagt að bæta í hópinn, en mest eru þetta nú konur sem eiga tengsl við sveitina."

Karlarnir mega elda
Álfheiður útskýrir að hestarnir séu einu karlkyns verurnar sem fá boð í þennan sérstaka útreiðartúr. „Jú og stöku hundur líka," segir hún og skellir upp úr. „Karlmennirnir mega elda fyrir okkur."

Fyrstu árin sem konurnar í Gnúpverjahreppi tóku upp á því að fara í kvennareið voru eiginmennirnir iðulega látnir bíða heima og undirbúa kvöldmatinn meðan konurnar riðu út. „Þá voru þeir búnir að grilla fyrir okkur þegar við mættum á áfangastað," segir Álfheiður. Þegar fram liðu stundir fjölgaði hins vegar í hópnum og núorðið kaupir hópurinn veitingar af veisluþjónustu í grenndinni og býður hópnum í kvennahátíð að útreiðartúrnum loknum.

„Þetta er alltaf gaman í þessum túrum. Það myndast alltaf stemning þar sem konur koma saman. Um kvöldið er sungið og spjallað og allar rosalega glaðar," segir Álfheiður.

birkirbi's picture
Birkir Blær Ingólfsson
Fréttastofa RÚV