Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Reynt að tryggja að neyðarboð berist til allra

13.10.2018 - 12:26
Hamfarir · Innlent · Katla
Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RUV
Ekki er hægt að fullyrða að neyðarboð berist í tæka tíð til allra á skilgreindu rýmingarsvæði ef ef eldgos hefst í Kötlu. Almannavarnir senda neyðarboð í alla farsíma á svæðinu, bæði innlend og erlend númer.

Þetta er meðal þess sem fram kom á ráðstefnu um Kötlu sem haldin var í Vík í Mýrdal í gær. Kötlugosum fylgir jafnan jökulhlaup, og jafnvel hamfarahlaup. Þorleifur Jónasson, sérfræðingur hjá Póst- og fjarskiptastofnun, segir mikla áherslu hafa verið lagða á að fjarskiptasamband sé nægilega gott til þess að tryggja megi að neyðarboð berist tímanlega til íbúa og annarra á hættusvæðum. „Það eru send út boð til allra síma sem eru á svæðinu, það eru allir símar, hvort sem það eru íslenskir áskrifendur eða erlendis frá.“

Reynt hafi verið að ganga úr skugga um að náttúruhamfarirnar valdi ekki truflunum á fjarskiptum. „Við getum aldrei útilokað það en við höfum gert ráðstafanir til þess að tryggja öryggi eins vel og hægt er. Það var t.d. gert með úttekt á sendastöðvum hér á rýmingarsvæði Kötlu 2016 og 2017,“ segir Þorleifur.

Ferðamönnum hefur fjölgað mjög á svæðinu undanfarin ár. Á þriðja þúsund ferðamanna geta verið í gistingu í Mýrdalshrepp á hverri nóttu og umferð hefur stóraukist. „Við þurfum að reyna og höfum reynt að tryggja það að samband sé sem víðast á svæðinu, kannski fyrst og fremst til íbúa en ferðamenn eru líka mikilvægir í þessu sambandi en það verður alltaf erfitt að tryggja það að það verði samband alls staðar þar sem ferðamenn eru á ferðinni.“

Ekki er til listi yfir öll númer á svæðinu á hverjum tíma en það er hægt að sjá hversu margir símar og frá hvaða löndum þeir eru.  Með því móti er hægt að fylgjast með hvort allir skili sér til byggða.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Þorleifur Jónasson, sérfræðingur hjá Póst- og fjarskiptastofnun