Reyni að sýna iðrun eftir óafsakanleg ummæli

03.12.2018 - 13:19
Mynd með færslu
 Mynd:
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, sem var á Klaustursupptökunum margnefndu, reyni að sýna iðrun með bréfi sem hann sendi flokksmönnum Miðflokksins. Hins vegar hafi átt sér stað trúnaðarbrestur, það sem fram komi á upptökunum sé óafsakanlegt.

Farið var ógeðfelldum orðum um Lilju á upptökunum, nokkrir þingmannanna uppnefndu hana og sögðust ætla að hefna sín á henni, hún hafi teymt þá á asnaeyrunum og spilað á karlmenn eins og kvenfólk kann, eins og komist var að orði. Í bréfi sínu til flokksmanna sagðist Sigmundur Davíð sjá eftir því að hafa ekki stöðvað samtalið en gengst ekki sjálfur við neinum ummælum.

„Ég tel að þarna eru menn að sýna iðrun og þeir auðvitað vita að þetta er ekki boðlegt og þeir eru að reyna að ávarpa það með þessum hætti,“ segir Lilja. „Það hefur hins vegar átt sér stað trúnaðarbrestur og menn þurfa að vinna sér inn traust til að geta starfað áfram. Bara eins og allir sem sitja á þingi, þetta kemur við okkur öll.“ Lilja sagði í Facebook-færslu í síðustu viku að ummæli þingmannanna lýstu vanmætti, ótta og úreltum viðhorfum.

Hefur einhver beðið þig afsökunar?
„Já ég hef fengið afsökunarbeiðni en það sem ég hef auðvitað líka sagt að þetta er óafsakanlegt.“

Lilja segist ekki vita hvað átt er við þegar þingmennirnir sögðust á upptökunni vilja hefna sín á henni. Hún kveðst þakklát fyrir þann stuðning sem henni hafi verið sýndur undanfarna daga. „Og þessi viðbrögð samfélagsins sem algjörlega hafna þessum málflutningi. Það er auðvitað ánægjulegt. Það er það góða í þessu.“

Fréttin hefur verið uppfærð: Í fyrri frétt var fullyrt að sex þingmenn hefðu talað illa um Lilju Alfreðsdóttur á Klaustri. Ólafur Ísleifsson vill koma því á framfæri að hann, Karl Gauti Hjaltason og Anna Kolbrún Árnadóttir hafi verið farin þegar sú umræða hófst.