Reyni að græða pening á meðan ég er á toppnum

Mynd: RÚV / RÚV

Reyni að græða pening á meðan ég er á toppnum

19.09.2019 - 13:15
Herra Hnetusmjör er fyrir löngu orðinn einn stærsti tónlistarmaður landsins. Hann er fastagestur á topplistum landsins og lag hans, Upp til hópa, hefur setið sem fastast á Top 50 lista Spotify síðan það kom út sumarið 2018.

Rappferillinn á rætur að rekja til gríns í grunnskóla þar sem Árni rappaði ásamt félaga sínum undir nöfnunum Herra Hnetusmjör og Sir Sulta. Þegar hann tók svo ákvörðunina að byrja að rappa fyrir alvöru ákvað hann að notast áfram við sama nafn. 

Árni hefur verið gagnrýndur fyrir að vera ekki nógu mikill listamaður og hugsa einungis um peninga. Hann segist ekki taka þessar raddir alvarlega enda sé hann bæði listamaður og viðskiptamaður og alveg sama hversu mikill listamaður hann er í augum einhvers annars. Hann sé bara að reyna að græða pening á meðan hann sé á toppnum. 

„Ég átta mig á því að ég verð ekki vinsælasti tónlistarmaðurinn á landinu alltaf. Þess vegna ætla ég að nýta mér tækifærin sem ég fæ núna af því að ég veit að þau munu ekki bjóðast alltaf.“ 

Herra Hnetusmjör er viðmælandi Atla Más Steinarssonar í fimmta þætti annarrar seríu Rabbabara. Þetta er fimmti þáttur af sex og hægt er að horfa á hann í fullri lengd í spilaranum hér fyrir ofan.