Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Reyndu að brjótast í kosningakerfi í 21 ríki

Mynd með færslu
 Mynd: epa
Rússneskir tölvuþrjótar reyndu að brjótast inn í tölvukerfi í tengslum við bandarísku forsetakosningarnar í fyrra. Þetta segir í vitnisburði Samuels Liles, sem er embættismaður hjá heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna. Washington Post greindi frá þessu. Tölvuþrjótarnir höfðu skýr tengsl við rússnesk yfirvöld og reyndu að brjótast inn í tölvukerfi í tuttugu og einu ríki.

Tilraunir þeirra höfðu engin áhrif á niðurstöður kosninganna, segir Liles, en þeir voru að skima eftir veikleikum í kosningakerfinu. Hann líkir því við að ganga niður eftir götu og skima eftir því hver sé heima. 

Embættismenn í Arizona og Illinois höfðu áður staðfest að tölvuþrjótar reyndu að hafa áhrif á niðurstöður kosninganna í þeim ríkjum og fréttaflutningur um tilraunir rússneskra tölvuþrjóta hefur verið talsverður. Vitnisburður Liles er hinsvegar talinn gefa skýrari mynd en áður af umfangi tölvuglæpanna.

Haft er eftir Jeanette Manfra, sem einnig vinnur fyrir heimavarnaráðuneyti Bandaríkjanna, á vef BBC að bandaríska kosningakerfið sé þannig úr garði gert að nær ómögulegt sé að brjótast inn í það, og því hafi tölvuþrjótarnir ekki haft erindi sem erfiði. Rússnesk yfirvöld hafa oftsinnis vísað ásökunum um afskipti af bandarískum kosningum á bug, og Donald Trump kallað fréttaflutning um málið falsfréttir.

Báðar deildir Bandaríkjaþings hlýddu á vitnisburði sérfræðinga um afskipti Rússa af kosningunum í dag, miðvikudag.

Sjá frétt Washington Post hér.