Athugið þessi frétt er meira en 11 ára gömul.

Reyna að semja um skuldaþakið

10.07.2011 - 18:18
Bandaríkjaforseti og Bandaríkjaþing hafa rétt rúmar þrjár vikur til að ná samkomulagi um að hækka skuldaþak bandaríska ríkisins. Takist það ekki verður ríkið uppiskroppa með fé og getur þá ekki staðið við skuldbindingar sínar.

Skuldaþak bandaríska ríkisins er 14,29 billjónir dala í dag en útlit er fyrir að hallareksturinn í ár verði 1,6 billjónir dala. Síðan 1962 hefur skuldaþak bandaríska ríkisins verið hækkað 74 sinnum, þar af tíu sinnum á síðustu tíu árum. Þingið þarf að samþykkja þá aðgerð. Verði það ekki gert fyrir 2. ágúst hefur bandaríska ríkið ekki peninga til að standa við skuldbindingar sínar og þá verður greiðslufall.

Repúblíkanar hafa meirihluta í fulltrúadeildinni en demókratar nauman meirihluta í öldungadeildinni með stuðningi óháðra. Barack Obama Bandaríkjaforseti hefur síðustu vikur fundað með fulltrúum repúblíkana og reynt að semja við þá um lausn. Semja þarf um hvernig ná eigi stjórn á skuldavandanum eftir að skuldaþakið hefur verið hækkað. Obama vill bæði niðurskurð á útgjöldum og skattahækkanir. Repúblíkanar vilja ekki skattahækkanir.

Timothy Geithner, fjármálaráðherra Bandaríkjanna, og Christine Lagarde, nýr forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sögðu að finna yrði lausn sem báðar fylkingar felldu sig við. Hinn kosturinn væri óhugsandi og hefði skelfilegar afleiðingar, ekki bara fyrir Bandaríkin heldur hagkerfi heimsins. Obama fundar með repúblíkönum í Hvíta húsinu í kvöld.