Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Reyna að framleiða kynhlutlausa eldisfiska

16.02.2019 - 15:33
Mynd með færslu
 Mynd:
Hafrannsóknastofnun gerir nú tilraunir með að gera eldisfiska kynhlutlausa. Þannig er leitast við að koma í veg fyrir að eldislaxar verði kynþroska og geti blandast við náttúrulega laxastofna, þá gæti kynhlutleysið bætt nýtingu í bleikjueldi.

 

Fiskar sem verða ekki kynþroska

„Þetta er svokölluð genaþöggun, það eru ákveðin efni sem að við notum á hrognin og við það þá verður ekki tjáning á ákveðnum genum sem stýrir því hvert kynfrumurnar fara í fisknum. Og þannig verður fiskurinn kynlaus eða kynhlutlaus,“ segir Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskiræktar og fiskeldis hjá Hafrannsóknastofnun. „Þetta er það sem að við höfum verið að gantast með hérna innanhúss að kalla hánun eða að búa til hán,“ segir Ragnar.

Álitlegra en þrílitna fiskar

Aðferðin telst ekki erfðabreyting, þar sem erfðaefnið er ekki snert heldur tjáning mRNA sem stýrir smíði próteins tengdu þroska kynfruma, þögguð og er það gert með því að koma hvarfefnum inn í frumur. Verkefnið er unnið í samstarfi við Stofnfisk og háskólann í Maryland sem er með einkaleyfi á aðferðinni. Ragnar telur aðferðina álitlegri en tilraunir með að ala þrílitna geldfisk, enda aðferðin minna inngrip. „Það sem virðist hafa verið meiri vandamál með þrílita fiskinn að það hafa verið meira um vanskapanir og dauða og það virðist vera sem að hann þoli ekki jafn vel jafn hátt hitastig né of lágt. Og við eigum nú alveg nóg af of lágu hitastigi hér á Íslandi,“ segir Ragnar.

Gæti haft mikil áhrif

Verkefnið er á tilraunastigi og ekki að vænta niðurstaðna fyrr en eftir um þrjú ár. „Þetta þýðir það náttúrlega að ef við getum framleitt fisk sem er kynhlutlaus þá er ekki hætta á því að hann fari upp í ár og trufli náttúrulegan fisk,“ segir Ragnar. Þá geti fiskurinn komið sér vel í bleikjueldi til að hindra að fiskurinn verði kynþroska fyrir slátrun, sem gerist hjá um 15-20 prósentum af bleikju. „Hann fellur í annan flokk og er varla vinnunnar virði að framleiða hann,“ segir Ragnar.