Reyna að einfalda umsóknir eins og hægt er

Mynd með færslu
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.  Mynd:
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir að áhersla verði lögð á að einfalda umsóknarferli stofnunarinnar svo sem frekast er unnt. Búið er að loka öllum þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar og þjónustan er nú aðeins veitt í gegnum síma og net. Því er lögð áhersla á að umsóknarferlið á netinu verði sem einfaldast og að þar verði aðgengilegar upplýsingar á nokkrum tungumálum.

Unnur var til svara á fundi almannavarna og landlæknis í dag. Hún sagði að Vinnumálastofnun hefði byrjað að grípa til ráðstafana um síðustu mánaðamót með því að hætta að boða fólk á fjöldafundi og taka viðtöl í gegnum síma frekar en í persónu. Nú hefur öllum þjónustuskrifstofum Vinnumálastofnunar verið lokað. Öll þjónusta er í gegnum símann og netið. Hún sagði að unnið væri að því að einfalda umsóknir svo að allir gætu farið á netið og fyllt út umsóknir.

Eitt stærsta verkefni Vinnustofnunar á næstunni er að greiða út bætur til þeirra sem fara í skert starfshlutfall vegna efnahagslegra afleiðinga COVID-19 faraldursins. „ VIð erum að tala um tímabundið ástand og vonandi stutt miðað við hrun,“ sagði Unnur. „Þá er svo mikilvægt að ráðningarsambandið haldist og þekkingin haldist innan fyrirtækjanna.“

„Við rennum ansi blint í sjóinn með hvaða fjöldi þetta verður. Það eina sem ég er nokkuð viss um er að þetta verður margt fólk. Vonandi verður þetta margt fólk, segi ég. VIð viljum að þetta úrræði verði nýtt frekar en að fólk missi vinnuna,“ sagði Unnur.

Unnur sagði í dag að vonandi yrði hægt að sækja um úrræðið á vef Vinnumálastofnunar á allra næstu dögum. Einstaklingar sem fara í skert starfshlutfall sækja sjálfir um greiðslur á vef Vinnumálastofnunar. Atvinnurekendur þurfa svo að staðfesta skert starfshlutfall á vefnum. Unnur sagði að kerfið yrði ekki flókið og að nú þegar væru komar fram leiðbeiningar á íslensku, ensku og pólsku. Þá tók hún fram að pólskumælandi umsækjendur geta hringt í Vinnumálastofnun milli eitt og þrjú alla daga og rekið erindi sín á pólsku.

Unnur sagði mikið álag á starfsfólk og kerfi Vinnumálastofnunar en kappkostað að halda uppi þjónustu. Hún benti á að fimmtán manna starfstöð fæðingarorlofssjóðs á Hvammstanga hefði verið lokað með skömmum fyrirvara. Þar hefði þó tekist að koma starfsfólki heim með tölvur svo að það geti unnið áfram.

Mynd með færslu
 Mynd: Viðar Guðjónsson - RÚV

„Við erum að taka meiri hagsmuni fyrir minni,“ sagði Alma Möller landlæknir um heimsóknabann á hjúkrunarheimilum, öldrunarheimilum og öðrum stöðum þar sem aðstandendum og öðrum hefur verið bannað að koma í heimsókn. Þetta sagði hún við upphaf upplýsingafundarins í dag. Hún sagðist skilja að þetta væri erfitt en að markmiðið væri að verja fólk fyrir smiti.

Allri valkvæðri heilbrigðisþjónustu verður frestað svo hægt sé að sinna því sem snýr að COVID-19 og nauðsynlegum aðgerðum. Þetta á bæði við í opinbera kerfinu og einkarekna kerfinu, þar á meðal þjónustu tannlækna. Alma sagði að ástæðan væri þreföld, hætta á smiti heilbrigðisstarfsfólks, hætta á smiti sjúklinga og álag á heilbrigðiskerfinu. Hún tók fram að allri brýnni heilbrigðis- og tannlæknaþjónustu verði sinnt.

Það kom fram á fundinum í dag að uppáhaldsbanki Ölmu er Blóðbankinn. Hún hvatti blóðgjafa til að gefa áfram blóð. Blóðsöfnun fer fram á Snorrabraut í Reykjavík og Glerárbraut á Akureyri. „Það er mikilvægt að allir panti tíma, annað hvort í síma eða skrái sig á vefnum svo það sé hægt að forðast biðraðir og halda fjarlægðir í tíma og rúmi.“

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi