Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Reyna að bjarga strönduðum andarnefjum

16.08.2018 - 14:53
Mynd: Sverrir Tryggvason / Sverrir Tryggvason
Hópur fólks reynir nú að halda lífi í tveimur andarnefjum sem eru fastar í fjörunni í Engey úti fyrir Reykjavík. Andarnefjurnar virðast hafa elt makríl upp í fjöruna og orðið fastar þar. Fólk á hvalaskoðunarbát frá Special Tours sá andarnefjurnar í fjörunni og menn frá fyrirtækinu fóru á rib-báti út í eyna til að hlúa að þeim.

Sverrir Tryggvason hjá Special Tours segir að andarnefjurnar séu á lífi og blási en að þær séu alblóðugar þar sem þær liggja í fjörunni. Handklæði hafa verið breidd yfir dýrin og vatni er hellt yfir þær til að koma í veg fyrir að þær ofþorni í sólinni. Markmiðið er að halda þeim á lífi þar til sjávarstaðan hækkar og andarnefjurnar geta synt burt.

Mynd með færslu
 Mynd: Sverrir Tryggvason

Fullvaxnar andarnefjur geta verið þrjú til þrjú og hálft tonn að þyngd. Tarfarnir verða átta til níu metrar en kýrnar sjö metrar að lengd.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV