Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Reyna að aftra för Winter Bay

25.06.2015 - 23:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Samtökin Avaaz – World in Action reyna að aftra för Winter Bay með hvalkjöt til Japan og koma í veg fyrir hvalveiðar Íslendinga sem hefjast innan skamms.

Samtökin standa fyrir undirskriftasöfnun þar sem um 150.000 manns hafa skrifað undir og hækkar talan hratt. Ekki er hægt að skrifa undir án þess að skrá sig inn á síðuna. Samkvæmt síðunni eru rúmlega 41 milljón skráðra notenda. Erfitt er að sannreyna undirskriftirnar og ekki er hægt að sjá heildarlista þeirra sem skrifað hafa undir.

Í undirskriftasöfnuninni er biðlað til Timothy Harris, forsætisráðherra karabísku eyjunnar St.Kitts and Nevis, um að afturkalla fána Winter Bay. Flutningaskipið sem flytur um 1800 tonn af hvalkjöti frá Íslandi er skráð þar í landi.

Í undirskriftasöfnuninni kemur einnig fram að hvalveiðar hefjist hér á landi innan skamms. Þar standi til að drepa 150 langreyðar í „útrýmingarhættu“. Langreyður er skráð í „útrýmingarhættu“ á rauða lista IUCN. Þar kemur hins vegar einnig fram að staða stofnsins í Norður-Atlantshafi sé góð. Ólíkt stöðu stofnsins í Kyrrahafi. 

Skipið Winter Bay er nú statt í Tromsö í Noregi. Þar bíður áhöfn þess að fá fregnir frá Norðurslóðaleið, Northern Sea Route. Til stendur að sigla með hvalkjötið yfir Norðurpólinn og til Japan. Það veltur á stöðu hafíss á svæðinu hvenær Winter Bay, sem er í lægsta ísklassa, getur siglt. Magn íss á þessum slóðum er minnst í ágúst og september.

Ekki er ljóst hvort skipið þarf á aðstoð ísbrjóts að halda en töluverður kostnaður gæti fylgt því. Þá er ekki hlaupið að því að fá þjónustu ísbrjóts á þessu svæði.