Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Reykjavíkurdætur hljóta nýju MMETA verðlaunin

Mynd með færslu
 Mynd:

Reykjavíkurdætur hljóta nýju MMETA verðlaunin

20.11.2018 - 18:45

Höfundar

Reykjavíkurdætur eru meðal tólf hljómsveita og listafólks sem hljóta MMETA verðlaunin, Music Moves Europe Talent Awards, sem afhent verða í Groningen í Hollandi í janúar.

Verðlaunin verða veitt við athöfn í tengslum við Eurosonic-hátíðina í Groningen 16. janúar. MMETA verðlaunin koma í stað EBBA verðlaunanna sem hafa verið veitt á sömu hátíð síðustu ár og eru veitt því tónlistarfólki sem þykir hafa náð framúrskarandi árangri með tónlist sinni, út fyrir landamæri heimalandsins.

Auk Reykjavíkurdætra hlutu einnig verðlaun Bishop Briggs (UK) og Lxandra (FI) í flokki popptónlistar, Pale Waves (UK) og Pip Blom (NL) í flokki rokktónlistar, Smerz (NO) og Stelartronic (AT) í raftónlist, Rosalía (ES) og Aya Nakamura (FR) í R&B flokki, Avec (AT) og Albin Lee Meldau (SE) í flokki söngvaskálda og svo hljómsveitin Blackwave. (BE) sem ásamt Reykjavíkurdætrum hlaut verðlaunin í flokki hiphop-tónlistar.

Mynd með færslu
 Mynd:
MMETA-verðlaunin verða afhent á Eurosonic-hátíðinni í Groningen í Hollandi í janúar.

Tónlistarhátíðin Eurosonic/Noorderslag í Groningen í Hollandi er ein stærsta hátíð og kaupstefna í Evrópu. Þar koma saman fjölmiðlar, umboðsmenn, tónleikabókarar, fulltrúar tónlistarhátíða og nýjustu og heitustu hljómsveitir Evrópu. Á opnunarkvöldi hátíðarinnar verða MMETA verðlaunin afhent en þau hljóta tíu nýir flytjendur sem náð hafa framúrskarandi árangri með tónlist sinni í Evrópu á undangengnu ári.

Meðal þeirra sem hlotið hafa EBBA verðlaun á undanförnum árum eru; Of Monsters and Men, Ásgeir Trausti, Sigrid, Alma, Aurora, Adele, Katie Melua, Damien Rice, Dua Lipa, , The Fratellis, Mumford & Sons, Hozier o.fl.