Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Reykjavík séð með tímavél

16.08.2012 - 21:38
Mynd með færslu
 Mynd:
Fortíðin birtist okkur ljóslifandi í nýrri sýningu í Iðuhúsinu. Með sýndarveruleika er hægt að spóla gegnum síðustu öld, sjá mannlífið í Austurstræti og horfin hús.

Það hefur margt breyst í Reykjavík á síðustu öld. Nú er hægt að skyggnast aftur í tímann og sjá breytingarnar með eigin augum.

Með sýndarveruleika er hægt að hverfa aftur til upphafs síðustu aldar og sjá hvernig tíminn hefur mótað ásýnd Austurstrætis síðustu hundrað árin. Þessi kynlega tímavél er hluti af sýningunni Reykjavik Walk í Iðuhúsinu. Stiklað er á stóru í sögu þjóðarinnar um leið og mannlífsmyndum bregður fyrir. Sýningin verður formlega opnuð á menningarnótt en undirbúningur hefur staðið yfir í tæpt ár.

„Þegar að við vissum að þetta væri mögulegt, við þurftum til að mynda að byggja kassa í garðinum hjá okkur til að athuga hvort það væri mögulegt að gera þetta, þá bara fórum við á fullt. Við fundum frábært fólk til að vinna með og ákváðum að kíla bara á þetta,“ segir Unnur Linda Konráðsdóttir framkvæmdastjóri Reykjavik Walk.

Halldóra Guðmundsdóttir flutti til Reykjavíkur á hernámsárunum. Þá var hún fimmtán ára gömul.

„Það eru margar minningar sem koma upp í hugann þegar maður sér svona," segir Halldóra. „Maður sá þarna til dæmis hressingarskálann sem var svona miðstöð unga fólksins og alheimsins. Ef maður átti fyrir kaffibolla fór maður þangað þegar maður átti frí.“

Ungum stúlkum var þá uppálagt að forðast hermennina eins og heitan eldinn. Á vinnustað Halldóru var brottrekstrarsök að leggja lag sitt við þá.

„Strákarnir voru óttalega fallegir en ég var bara svo ung að ég þorði ekki að líta á þá. Ef ég hefði verið svolítið eldri hefði ég öruglega kíkt meira á þá,“ segir Halldóra.

Á sýningunni getur Halldóra þó horft blygðunarlaust á þá og þá Reykjavík sem eitt sinn var.

„Það mætti gera meira af þessu. Við þurfum alltaf að tengja saman fortíð og framtíð. Það segir málsháttur að fortíð skal hyggja ef framtíð skal byggja. Unga fólkið þarf að halda uppi því sem forfeðurnir hafa gert og halda ekki að það sé búið. Það er aldrei búið það sem við þurfum að gera. Það er alltaf að koma eitthvað nýtt því lífið er alltaf á hreyfingu og það á að vera það.“