Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Réttindi Íslendinga í Bretlandi tryggð

08.02.2019 - 15:29
Innlent · Bretland · Brexit · EFTA · Evrópusambandið · Ísland · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd:
Samningaviðræðum EFTA-ríkjanna innan evrópska efnahagssvæðisins við Bretland um búseturéttindi fólks ef Bretland gengur úr Evrópusambandinu án samnings er lokið. Samningurinn tryggir réttindi íslenskra, norskra og liechtensteinskra borgara í Bretlandi eftir Brexit.

Frá þessu er greint á vef Stjórnarráðsins í dag. Á sama hátt er breskum ríkisborgurum tryggð réttindi hafi þeir búsetu í einhverju landanna þriggja við Brexit. Bretland gengur úr Evrópusambandinu að öllu óbreyttu, með eða án samnings, 29. mars næstkomandi.

Í lok síðasta árs lauk samningaviðræðum EFTA-ríkjanna innan EES við Bretland vegna útgöngu Bretlands úr EES og ESB. Sá samningur verður ekki undirritaður nema útgöngusamningur ESB og Bretlands verður samþykktur. Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hefur reynt að koma samningnum í gegnum breska þingið en án árangurs.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins er haft eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni: „Íslensk stjórnvöld hafa undirbúið sig fyrir mismunandi sviðsmyndir meðal annars þann möguleika að Bretland gangi úr ESB án samnings. Þetta er mikilvægur áfangi í þeirri vinnu sem tryggir réttindi íslenskra og breskra ríkisborgara óháð því hvort viðræðum Bretlands og ESB ljúki með samningi þeirra á milli.“