Réttindi barna í brennidepli

10.10.2014 - 18:45
Erlent · Asía · Rás 1 · Spegillinn
epa02609372 An unidentified child carries two steel rings at an automobile market in Calcutta, India, 01 February 2011. Scores of children with age between 6-14 years old work in different markets and small industrial zones in Calcutta. Seventy one per
 Mynd: EPA
Pakistanska unglingsstúlkan Malala Yousafzai og indverski baráttumaðurinn Kailash Satyarthi hljóta Friðarverðlaun Nóbels í ár. Þau hafa bæði barist fyrir réttindum barna og ungmenna til menntunar og mannsæmandi lífs.

Thorbjörn Jagland, formaður norsku nóbelsnefndarinnar, tilkynnti í morgun að friðarverðlaunin í ár hljóti þau Malala Yousafzai og Kailash Satyarthi, fyrir baráttu sína gegn undirokun barna og ungmenna og fyrir rétti þeirra til menntunar.

Malölu þekkja margir og var hún sterklega orðuð við friðarverðlaunin í ár. Þessi sautján ára pakistanska stúlka er langyngsti handhafi Nóbelsverðlauna í hundrað og þrettán ára sögu þeirra.  

Tilræðið veitti henni kjark

Ellefu ára gömul byrjaði Malala að skrifa nafnlausa pistla á vef breska útvarpsins BBC um líf sitt sem ung skólastúlka undir hernámi Talíbana í Swat-dalnum í norðvestur Pakistan. Talíbanar vilja ekki að stúlkur fái að ganga menntaveginn, og í október 2012 reyndu þeir að ráða hana af dögum í skotárás — hún komst lífs af en særðist alvarlega. 

Og lét tilræðið ekki stöðva sig. Hún hefur haldið áfram ötulli baráttu sinni fyrir menntun stúlkna og hefur þegar hlotið fjölda verðlauna fyrir starf sitt. Þegar hún ávarpaði Sameinuðu þjóðirnar í fyrra sagði hún að tilræðið hefði ekki dregið úr henni kjarkinn, þvert á móti hefði það gefið henni aukið hugrekki og styrk. 

Berst gegn barnaþrælkun

Indverjinn Kailash Satyarthi, sem fær verðlaunin ásamt Malölu, er ef til vill ekki eins þekktur. Satyarthi er sextugur og hann hefur barist fyrir réttindum indverskra barna í á fjórða áratug. 

Í byrjun níunda áratugarins stofnaði hann samtökin Bachpan Bachao Andolan eða Björgum barnæskunni til að berjast gegn barnaþrælkun, nokkuð sem er skelfilegt vandamál í Indlandi.

Bjargar börnum úr ánauð

Þegar Kailash Satyarthi kemur til þorpsins Bal Ashram  í Rajasthan í vestanverðu Indlandi er honum vel fagnað af börnunum í þorpinu.
Börnin eru öll fyrrverandi þrælar sem Satyarthi hefur bjargað úr ánauð — Bal Ashram er eitt af þorpunum sem hann hefur stofnað til að hjálpa fyrrverandi þrælum, börnum og fullorðnum, að hefja nýtt líf í frelsi. 

Áætlað er að Satyarthi hafi bjargað um áttatíu þúsund börnum úr þrælkun og ánauð, með því að ráðast í verksmiðjur, námur og önnur fyrirtæki þar sem börn eru látin þræla. Hann flytur þau burt og veitir þeim ný heimili og tækifæri til menntunar.

Fimmtíu milljón börn í þrælkunarvinnu

Þessar tugþúsundir barna eru þó í raun aðeins dropi í hafið. Í nýlegu viðtali við Wall Street Journal áætlar Satyarthi að um fimmtíu milljón börn á Indlandi vinni í barnaþrælkun, og þar af séu tíu milljónir í ánauð vinnuveitenda sinna, bókstaflega haldið sem þrælum.

Árlega sé verslað með þræla á Indlandi fyrir meira en eina billjón rúpíur, andvirði um tveggja billjóna íslenskra króna.

Brýnt að beina kastljósinu að börnum

Í umsögn norsku Nóbelsnefndarinnar í ár segir ennfremur að það sé táknrænt að verðlaunahafarnir í ár séu hindúi og múslimi, Indverji og Pakistani, sem saman berjist fyrir menntun og gegn öfgamönnum.

Val nefndarinnar á verðlaunahöfunum í ár er ólíklegt til þess að verða mjög umdeilt, eins og stundum hefur orðið, og engin hætta á að Noregur lendi í milliríkjadeilu þeirra vegna, en samband Norðmanna við Kínverja er enn stirt eftir að kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo fékk verðlaunin 2010.

Mannréttindasamtök víða um heim hafa fagnað verðlaunahöfum ársins og segja brýnt að beina kastljósinu að réttindum barna, ekki bara í Indlandi og Pakistan, löndum verðlaunahafanna, heldur um heim allan.