
Réttindalaus skipstjóri og biluð bakkmyndavél
Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa um banaslysið við Jökulsárlón sem birt var í dag.
Konan hafði verið á ferðalagi um Suðurland ásamt eiginmanni og syni þegar slysið varð. Þau höfðu ferðast með þyrlu og stóðu og horfðu á hana lenda á mel sem er við malarplanið. Á sama tíma var skipstjóri hjólabáts nýbúinn að sækja farþega á vestanverðu planinu og var að bakka ökutækinu í austurátt. Hann ætlaði síðan að snúa farartækinu við og aka áfram í norðvestur, þaðan sem hjólabátunum er síðan ekið út á lónið.
Í skýrslunni kemur fram að skipstjórinn hafi bakkað á fjölskylduna sem sneri baki í farartækið. Nefndin segir að fjölskyldan hafi ekki orðið vör við farartækið vegna hávaða frá þyrlunni og þar sem báturinn gaf ekki frá sér viðvörunarhljóð þegar bakkað var. Fjölskyldan féll öll við og varð konan undir afturhjóli bátsins og lést samstundis.
Í skýrslunni er haft eftir föðurnum að þau hafi öll fengið þungt högg á sig og verið keyrð niður. Framburður sonarins var með sama hætti - hann hefði ekki vitað fyrr en hann fékk högg á bakið og lenti við hlið bátsins. Í skýrslunni kemur fram að faðirinn hafi lent milli hjóla bátsins en móðirin orðið undir hægra afturhjóli.
Nefndin rekur nokkrar ástæður fyrir slysinu, meðal annars að umferð gangandi vegfaranda, hjólabáta og annarra ökutækja á malarplaninu sé ekki aðgreind. Þá hafi skipstjóri og annar starfsmaður ekki gengið úr skugga um hvort hættulaust hafi verið að aka ökutækinu aftur. Bakkmyndavél, sem allir hjólabátarnir við Jökulsárlón séu með, hafi verið biluð í umræddum bát.
Nefndin nefnir sömuleiðis að hjólabátarnir hafi ekki gefið frá sér viðvörunarhljóð þegar þeim hafi verið bakkað, útsýni úr hjólabátnum sé ekki gott. Þá segir nefndin að skipstjóri hjólabátsins hafi ekki haft réttindi til að stjórna bátnum.
Nefndin beinir því til landeiganda og rekstraraðila við lónið að hefja uppbyggingu mannvirkja í samræmi við gildandi deiliskipulag sem bæti umferðaröryggi og dragi þannig úr slysahættu. Nefndin segir sömuleiðis að uppfæra þurfi öryggisáætlun hjólabátanna með tilliti til öryggis við akstur þeirra á landi, bæta þurfir reglur sem gildi um hjólabáta.