Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Rétti tíminn til að hætta

24.09.2012 - 12:00
Mynd með færslu
 Mynd:
„Ég hef verið lengi í stjórnmálum, hef verið í þinginu í átján ár og þar af ráðherra í sex ár. Hef farið í gegnum Alþingiskosningar fimm skipti þannig að ég tel að þetta sé rétti tíminn,“ segir Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, um ástæður þess að hún sækist ekki eftir endurkjöri.

„Ég er líka mjög stolt af mínum störfum þannig að mér finnst þetta vera ágætt að ákveða núna að fara frá þessum vettvangi. Ég geri það gríðarlega sátt og stolt. Þessi ákvörðun hefur alls ekkert með stöðu flokksins að gera. Flokkurinn er í sókn og ég tel að hann muni gegna lykilhlutverki á næsta kjörtímabili,“ segir Siv.

Ljóst er því að Framsóknarfólk í suðvesturkjördæmi verður að velja sér nýjan oddvita fyrir komandi þingkosningar. Eygló Harðardóttir, þingmaður flokksins úr suðurkjördæmi, lýsti því yfir í morgun að hún gæfi kost á sér í fyrsta sætið.