Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Rektor Háskóla Íslands mjög ánægður

14.12.2017 - 19:16
Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segist mjög ánægður með það aukafjárframlag sem skólinn fær í fjárlagafrumvarpinu sem kynnt var í morgun. Framlagið dugi til þess að rétta stöðu skólans við.

„Við erum að horfa á tæplega 800 milljónir á milli ára miðað við síðasta frumvarp. Og við erum mjög ánægð með þá breytingu sem hefur komið fram,“ segir Jón Atli, en framlagið nemur rúmum 6% af heildarframlögum til skólans. „Háskólinn er sáttur við að það eigi að stefna að þessu OECD meðaltali innan kjörtímabilsins og Norðurlandameðaltalinu innan fimm ára þar á eftir, 2025. Þannig að þetta er mjög jákvætt teljum við.“

Duga þessar tæpu 800 milljónir til þess að rétta stöðu skólans af?

„Við teljum svo vera. Við höfum verið svo lengi í niðurskurði og verið að vinna mikið með skort. Við vorum einmitt að vinna í fjárhagsáætlanagerð og þá leit þetta mjög illa út, en þetta gerir hlutina strax miklu betri. Og með áframhaldandi innspýtingu inn í háskólastarfið teljum við að við séum á góðri leið.“

Hvenær munu nemendur finna fyrir þessu?

„Þeir finna fyrir þessu strax. Til að mynda þurftum við að fækka verulega námskeiðum síðast en þurfum ekki að fara í slíkar aðgerðir núna um þessi áramót.“

Ítarlegt viðtal við Jón Atla má sjá í spilaranum hér að ofan.