Reiknivél aðgengileg um mánaðamót

07.11.2012 - 11:48
Mynd með færslu
 Mynd:
Reiknivél til að endurreikna ólögmæt gengistryggð lán verður tekin í gagnið fyrir mánaðamót. Bankarnir vinna að endurreikningi lánanna.

Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis samþykkti að fela umboðsmanni skuldara að setja upp reiknivél til að endurreikna ólögmæt gengistryggð lán. Þar er verið að útbúa reiknivélina og tryggja rétta útkomu. Reiknað er með að hún verði tilbúin til notkunar undir lok þessa mánaðar.

Bankarnir eru nú að endurreikna lán vegna dóms Hæstaréttar frá 18. október í máli Borgarbyggðar gegn Arion banka. Landsbankinn telur dóminn staðfesta fordæmisgildi dóms Hæstaréttar frá því í febrúar en segir enn óútkljáð ákveðin álitamál sem hafi verið eða verði send dómstólum á næstunni. Nauðsynlegt sé að fá úr þeim skorið áður en hægt verði að ljúka öllum útreikningum.

Hjá Arion banka er talið að dómurinn eigi við um gengistryggð lán þar sem lántakinn var í skilum. Því þurfi að endurskoða endurútreikning gengistryggðra lána hjá þeim sem stóðu í skilum allan tímann og sú vinna sé hafin.

Íslandsbanki er að endurreikna lán sem falla undir dóma Hæstaréttar frá því í febrúar og október. Að auki er hafinn endurútreikningur á ólögmætum gengistryggðum bílalánum. Telur bankinn að samtals séu þetta 6000 lánasamningar.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi