Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Reiði vegna hátíðar skiljanleg

09.08.2013 - 12:22
Mynd með færslu
 Mynd:
Þeir sem ætluðu að nálgast ókeypis miða á Hátíð vonar, sem haldin verður í Laugardagshöll í september, gripu í tómt seint í gærkvöld, því samkvæmt vefsíðunni midi.is var orðið uppselt.

Ekki er þó talið að ástæðan sé áhugi fólks á að taka þátt í hátíðinni, heldur hafi fjöldi fólks þvert á móti pantað sér frímiða til þess eins að nota þá ekki og voru aðrir hvattir til að gera slíkt hið sama á facebook. Með þessu er lýst óánægju með aðalfyrirlesara hátíðarinnar, ræðumanninn Franklin Graham, sem er þekktur fyrir harða afstöðu gegn réttindabaráttu samkynhneigðra.

Vakti það meðal annars reiði að þjóðkirkjan skyldi birta tilkynningu um þátttöku sína í hátíðinni, á sama tíma og Hinsegin dagar fara fram í Reykjavík. Segja má að Hátíð vonar hafi þannig snúist upp í andhverfu sína. Nú standi vonir sumra til að Laugardalshöllin verði tóm í september.

Fjallar á engan hátt um samkynhneigð

Ragnar Gunnarsson er framkvæmdastjóri hátíðarinnar en að henni standa hópar kristinna safnaða. Hann segist skilja þessa reiði, en hátíðin fjalli á engan hátt um samkynhneigð og sé ekki beint gegn réttindabaráttu samkynhneigðra. Skoðanir manna á samkynhneigð séu mismunandi. Hann segir aðstandendur hátíðarinnar ætla að endurskoða dagskrá hátíðarinnar og tilkynna ákvörðun þar að lútandi á næstu dögum.

Áformað er að Agnes M. Sigurðardóttir biskup haldi ræðu á hátíðinni, hún segist ætla að velta þátttökunni fyrir sér á næstu vikum. Hún hafi verið beðin um að tala á þessari hátíð fyrir mörgum vikum og orðið við því. Hún telur að með því að koma fram á hátíðinni geti hún komið sjónarmiðum kirkjunnar á framfæri og býst því við að að hún geri það. Agnes segist þó hafa heilan mánuð til að hugsa sig um og hyggst gera það. Þjóðkirkjan sem stofnun standi ekki fyrir hátíðinni en hafi þegið boð um að taka þátt í henni. Hún segir þjóðkirkjuna hafa skýra stefnu í málefnum samkynhneigðra, hún standi með þeim og styðji réttindabaráttu þeirra.