Reiðar og mjúkar Reykjavíkurdætur

Mynd: Borgarleikhúsið / Borgarleikhúsið

Reiðar og mjúkar Reykjavíkurdætur

24.05.2017 - 14:48

Höfundar

Leikhúsgagnrýnandi Víðsjár brá sér á sýningu Reykjavíkurdætra á Litla sviði Borgarleikhússins. Hún veltir fyrir sér hvort játningarmenningin flækist inn í sýninguna af írónískum ástæðum eða hvort innri togstreita Reykjavíkurdætra, að vera bæði mjúk kona og reiður rappari, sé orsökin.

María Kristjánsdóttir skrifar:

Síðasta sýning Borgarleikhússins á þessu leikári er sýning rappgrúppunnar Reykjavíkurdætur á litla sviðinu. Þó ýmsar sýningar undanfarinnar ára hafi leitast eftir sjálfbærni þá slær þessi sýning sennilega metið. Leikstjórn, leikmynd og búningar, hljóðmynd og tónlistarstjórn, texti og tónlist allt er það úr smiðju sjálfra  sýnendanna, Reykjavíkurdætranna níu. Leikstjóri er Kolfinna Nikulásdóttir nýútskrifuð af sviðshöfundabraut Listaháskólans. Og það gleður kvenhjarta alveg sérstaklega að stelpu nýsloppinni úr skóla skuli aldrei þessu vant  vera treyst til þess að leikstýra eftir að við í áratugi höfum orðið að þola að það sé öldungis eðlilegt að strákar með einhverja reynslu sem leikarar en enga menntun í leikstjórn hristi fram úr erminni jafnvel sýningar á stóru sviðunum.

Sýningin fjallar um þær sjálfar. Þetta er sjóið um Reykjavíkurdætur.  Það samanstendur í fyrsta lagi af sjálfstæðum atriðum þar sem persónur þeirra eru kynntar til leiks, sjálfhverfa í formi nútíma játninga afhjúpuð, sjálfspynting, lífsstíll þeirra, erfiðið að vera kona. Í öðru lagi af listrænni sköpun þeirra sem rapparar. Og í þriðja lagi er teflt gegn stöðu þeirra sem listamanna:  tónlistar og leiklistarheiminum sem þær hrærast í, heimi karlaoflátunga.

Mynd með færslu
 Mynd: Borgarleikhúsið

Það er meiri sjónvarpsbragur á sjóinu en leikhúsbragur.  Eiginlega orka Reykjavíkurdætur á áhorfandann í sjálhverfu köflunum helst sem bakraddir, bakgrunnsdansarar í skemmtiþáttum og myndupptökum, ‒sem sagt sem uppfylling , skreyting við  aðalhlutverk.  Það gera undurfögru millistéttar  íþróttagallarnir sem glitra hæversklega líkt og mellubandið um hálsinn  ásamt kóreógrafíu, og hreyfingum.  Þær eru ekki bara mjúkar, fitt og fallegar, sexí  heldur að ákveðnu marki flæktar í játningarmenningu og sýn fjölmiðla á konur sem þolendur. Það er ekki auðvelt að greina hvort þessi hluti sýningarinnar er írónískt hugsaður og gróft , árásgjarnt anarkískt rappið sem brýst reglulega fram  tilraun til að losa sig úr þeim viðjum. Eða hvort þær eru að lýsa því að í þeim takist á löngun til að vera mjúk kona og reiði rappsins.  Þó glitti ætíð í húmor þá saknar áhorfandi  í þeim hluta sýningarinnar: meiri íróníu , hæfileikans að hlæja dátt að sjálfum sér.  Mest þó af öllu meiri leiklistar.  En þegar þær verða rýnendur og sýnendur í rappinu og  ímynduðum sjónvarpsviðtölum við gæjana í leikhús og tónlistarheiminum  þá eru hlutirnir skýrari, groddalegri og skemmtilegri. Leikrænasti kaflinn  og hnyttnasta gagnrýnin  er  þegar sjónvarpsviðtölin leysast upp og strákarnir hlæja og tala í hring inn í rassgatið á hver öðrum. Þá þarf kvenáhorfandi að gæta þess að kafna ekki úr hlátri.

Það er full ástæða til að fagna þessu fyrsta verkefni leikstjórans Kolfinnu Nikulásdóttur, mynd og búningahöfundarins Jóhönnu Rakelar og Sigurlaugar Söru Gunnarsdóttur og Steinunnar Jónsdóttur  sem sjá um kóreógrafíu með þeim tveimur fyrrnefndu. Þar birtist bæði ákveðin kunnátta, húmor og óskammfeilni sem lofar góðu inn í framtíðina.

Heilabrotum veldur þó að á sama tíma og þróun hefur lengi verið í þá átt að ballettinn, myndlistin, jafnvel tónlistin hafa sótt endurnýjunarkraft í sérkenni leiklistarinnar þá er hún hornkerling í þessari leikhússýningu sem sprottin er þó  uppúr leikrænu rappi. Það er fas og látæði myndmiðla sem er ríkjandi. Reykjavíkurdætur ættu kannski líka, ekki síður en gagnrýnandi, að velta fyrir sér af hverju það stafi?