Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Regnbogasilungur í ám á Vestfjörðum

13.09.2016 - 14:28
Mynd með færslu
Veiðifélögin telja að villta laxastofninum sé búin hætta ef laxeldisáform ná fram að ganga. Mynd: Ásgeir Jónsson - RÚV
Regnbogasilungur hefur fundist í nokkrum ám á Vestfjörðum en engar tilkynningar hafa borist Fiskistofu um sleppingar úr sjókvíaeldi. Regnbogasilungur finnst ekki í íslenskri náttúru og því ljóst að hann kemur úr fiskeldi. Guðni Magnús Eiríksson, sviðsstjóri hjá Fiskistofu, segir að regnbogasilungur hafi ekki náð fótfestu hér og því verði áhrifin á lífríkið tímabundin. Öðru máli gegni um eldislax sem geti blandast villtum úti í náttúrunni.

Guðni segir að regnbogasilungurinn muni að öllum líkindum hverfa úr ánum, annaðhvort með veiði eða af náttúrulegum orsökum. Á meðan hann er í ánum sé hann hinsvegar í samkeppni um fæðu við náttúrulega fiska og geti haft áhrif á hrygningarstöðum. 

Tveggja daga eftirlitsferð Fiskistofu á Vestfjörðum í byrjun mánaðarins staðfesti að regnbogasilung er nú að finna í ám í Patreksfirði, Tálknafirði, Arnarfirði og Dýrafirði. Grunur sé um að regnbogasilung sé einnig að finna í Ísafjarðardjúpi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Fiskistofu. Guðni segir engin dæmi hafa fundist um regnbogasilung í Langadalsá eða Hvannadalsá í Ísafjarðardjúpi. Guðni segir að sleppingar séu alltaf alvarleg atvik. Fundur verði með Matvælastofnun um frekari viðbrögð síðar í vikunni um það hvort gripið verði til ráðstafana. 

Engin tilkynning hefur borist stofnuninni um að fiskur hafi sloppið úr fiskeldi á Vestfjörðum. Rekstraraðilum er skylt að tilkynna um slys, lögum samkvæmt. Refsing við alvarlegum atvikum varðar allt að tveggja ára fangelsi. 

Gagnrýnir vöxt í laxeldi

Jón Helgi Björnsson, formaður Landssambands veiðifélaga, gagnrýnir áform um mikinn vöxt í fisk-og laxeldi hér á landi. Regnbogasilungurinn sem slapp úr sjókvíaeldinu fyrir vestan sýni fram á að áhrifin frá laxeldi geti orðið mikil þegar eldislax sleppur úr sjókvíaeldi. Guðni tekur undir það og segir það miklu meira áhyggjuefni ef frjór eldislax sleppur út í lífríkið. „Þá er mögulegt að eldislax gæti æxlast með villtum laxi og þannig blandast villtum. Það hefði þannig áhrif til lengri tíma. Þetta hefur komið á daginn í Noregi. Hér á landi er munurinn á íslenskum villtum laxi og norskum eldislaxi meiri en á villtum norskum laxi og eldislaxi. Raunverulega er ekki vitað hver áhrif af slíkri blöndun yrði. Það er staða sem við vonum að komi ekki upp.“

Jón Helgi segir að Landssamband veiðifélaga hafi bent stjórnvöldum á að regnbogasilungur veiðist nú um allt land og það gefi vísbendingar um áhrif frá laxeldi. „Íslenski laxinn muni ekki þola þetta álag. Við sjáum skýrt hverjar afleiðingar af auknum umsvifum verða á villta laxastofna.“ 

Laxeldi hefur verið leyft á Vestfjörðum, Austfjörðum og í Eyjafirði. Matvælastofnun hefur eftirlit með og veitir leyfi til fiskeldis, sem sé bannað í nágrenni við stóru laxveiðiárnar. „Auðvitað getur fiskur sem sleppur borist milli landshluta. Það er ekki fullkomin vörn að loka landsvæðum fyrir sjókvíaeldi,“ segir Guðni. 

60 milljónir laxar verði í kvíunum
Jón segir að ef leyfi verði veitt fyrir framleiðslu 100 þúsund tonna á ári þurfi að vera um 60 milljónir laxa í kvíunum kringum landið. Hann hefur áhyggjur af áhrifum á íslenska stofninn, sem sé smár í samanburði. „Veiði á íslenska laxastofninum er um 50 þúsund laxar á ári. Gera má ráð fyrir að stofninn telji milli 70 og 90 þúsund laxa.“

Jón segir laxinn hættulegri fyrir lífríkið og vísar í norska rannsókn sem sýnir að 60 prósent af villtum laxastofnum í Noregi hafi merki um að eldislaxar hafi blandast inn í stofnana.  „Erfðamengi eldislaxa er frábrugðið villtum og þegar villtir blandast eldislaxi þá missa þeir hæfni til að lifa í villtri náttúru,“ segir Jón.

Eldisstöðvar aðstoða Fiskistofu og Matvælastofnun

Í yfirlýsingu frá Landssambandi fiskeldisstöðva kemur fram að stöðvarnar vinni með Fiskistofu og Matvælastofnun að því að komast að því hvaðan regnbogasilungurinn kemur. Hann sé alinn á fjórum stöðum á Vestfjörðum; hjá tveimur aðilum í Önundarfirði, í Dýrafirði, Tálknafirði og Ísafjarðardjúpi. Fiskistofa fer með forræði í málinu en eldisfyrirtækin veita alla þá aðstoð sem unnt er í samræmi við fyrirmæli stofnunarinnar.

asrunbi's picture
Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV