Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Regnbogagata Hinsegin daga opnuð á Dalvík

30.07.2019 - 15:21
DCIM\100MEDIA\DJI_0012.JPG
 Mynd: Haukur A. Gunnarsson
Regnbogagata var opnuð á Dalvík í dag, í tilefni þess að Hinsegin dagar í Reykjavík verða heiðursgestir Fiskidagsins mikla. Regnbogagatan nær yfir tvær götur meðfram sjónum á Dalvík; Sunnutún og Martröð.

Fulltrúi Hinsegin daga í Reykjavík flytur ræðu við Vináttukeðjuna á setningu Fiskidagsins mikla 9. ágúst.

Á Hinsegin dögum 2019 verður þess minnst að 50 ár eru liðin frá Stonewall uppreisninni í New York, þar sem réttindabarátta hinsegin fólks hófst fyrir alvöru. Þar var lagður grunnur að pride-hátíðahöldum sem í dag þekkjast víða um heim. Þá verður um leið fagnað 20 ára sögu hinsegin hátíðahalda í Reykjavík.

Mynd með færslu
 Mynd: Guðný S. Ólafsdóttir

„Á þessu sannkallaða afmælisári er því mikið fagnaðarefni að skipuleggjendur Fiskidagsins mikla hafi kosið að gera Hinsegin dögum og hinsegin málefnum hátt undir höfði og staðfesta þannig stuðning sinn við mannréttindi og margbreytileika mannlífsins,“ segir í tilkynningu frá Gunnlaugi Braga Björnssyni, formanni Hinsegin daga í Reykjavík. „Við þökkum þann heiður sem okkur er sýndur og vonum að Dalvík, sem og landið allt, skarti sínum skærustu regnbogalitunum í ágústmánuði.“

agusto's picture
Ágúst Ólafsson
Fréttastofa RÚV