Ref fjölgar aftur á Hornströndum

Mynd: Phil Garcia / Náttúrufræðistofnun Íslands

Ref fjölgar aftur á Hornströndum

02.07.2015 - 15:45

Höfundar

Í fyrra var talað um að hrun hafi orðið í refastofninum í friðlandinu á Hornströndum. Fjöldi dýra fundust dauð og aðeins fáein pör komu upp yrðlingum. Ástandið er allt annað núna segir Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýravistfræðingur sem var í Hornvík fyrir skömmu.

„Það var fullt af lífi, bæði refir og fuglar og mikið af hlaupadýrum og fullt af grenjum í ábúð og yrðlingar út um allt,“ segir Ester.

Hún segir jafnframt mun meira hafa fundist af eggjaskurn í bjarginu en í fyrra. Jafnframt hafi þekkt fuglaóðöl verið með fugli núna. Breyting á fjölda refa helst áreiðanlega í hendur við fæðuframboð segir Ester og óvíst er hversu mikið lifir af yrðlingunum. Hún segist aldrei áður hafa séð jafn stór got á svæðinu.

Um næstu helgi er ætlunin að fara í Hælavík, Hlöðuvík og Kjaransvík og kanna ástandið þar.

Rætt er við Ester í Samfélaginu