Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Raunhæft að Viðreisn leiði stjórnarmyndun

30.10.2016 - 11:28
Mynd:  / 
Benedikt Jóhannesson, formaður Viðreisnar, segir raunhæft að Viðreisn leiði myndun næstu ríkisstjórnar. Viðreisn sé sá flokkur sem hafi unnið mest á og úrslitin í þingkosningunum séu ákall um breytingar og breiðari stjórn og eðlilegast væri að nálgast það frá miðjunni.

Viðreisn var að bjóða fram í fyrsta skipti og fékk mjög góða kosningu - ívið betri en skoðanakannanir bentu til. Benedikt var því nokkuð sáttur - þetta væri í samræmi við væntingar.. „Við vorum að mælast heldur minna en sögðumst finna meðbyr - eins og kannski allir - en það reyndist vera rétt í okkar tilviki.“

Viðreisn var boðið til viðræðna þegar stjórnarandstöðuflokkarnir ákváðu að hittast skömmu fyrir kosningar. Flokkurinn þáði það ekki og kosningabandalagið magalenti í kosningunum, ekki síst vegna hruns Samfylkingarinnar. „Þetta er ákall um breytingar,“ segir Benedikt og það væri eðlilegast að nálgast slíkar breytingar frá miðju.  Formaðurinn segir það jafnframt raunhæft að Viðreisn, flokkur sem komi frá miðju, leiði slíkar viðræður.

Benedikt segir ekkert sjálfgefið að Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, fái stjórnarmyndunarumboðið þótt hann sé stærsti flokkurinn. Forsetinn eigi að fela þeim stjórnarmyndunarumboðið sem hann telur líklegastur til að mynda starfhæfa stjórn. „Ég ætla ekki að taka þetta af forsetanum en svona horfir þetta við mér.“

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV