Rauður þráður kvenfyrirlitningar á upptökunum

29.11.2018 - 14:12
Mynd:  / 
„Ég hélt að það væri ekki sjálfgefið þegar nokkrir karlmenn kæmu saman og fengju sér í glas og skemmtu sér að þetta yrði umræðuefnið,“ segir Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, þegar hún er innt eftir viðbrögðum við fréttum af upptökum sem DV og Stundin hafa birt og valdið hafa hneykslan og sárindum hjá öðrum þingmönnum í dag. Á þeim sé rauður þráður kvenfyrirlitningar. „Ég skammast mín fyrir að starfa í umhverfi þar sem svona gerist.“

Hanna segir að ummælin á upptökunum, sem nokkrir þingmenn Miðflokksins og Flokks fólksins létu falla á Klaustur bar í síðustu viku, geri hana virkilega dapra. „Auðvitað gerist það alls staðar, held ég, að menn tali galgopalega og séu með sleggjudóma um menn og málefni en þessi rauði þráður kvenfyrirlitningar sem er þarna undirliggjandi er þannig að ég er eiginlega bara klökk.“ Ummæli þingmannanna snérust meðal annars um að gera grín að metoo-hreyfingunni og þar er látið að því liggja að aðrir þingmenn, sérstaklega konur, séu vanhæfir í starfi og niðrandi orðræða viðhöfð um útlit þeirra, svo vægt sé til orða tekið. Þá er rætt um Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur sem geranda í metoo-sögu eins og það er orðað.

Hanna Katrín segir að hópur þingmanna, að henni sjálfri meðtaldri, hafi sent erindi til forsætisnefndar með beiðni um að vísa þessu máli til siðanefndar Alþingis. „Það er hinn rétti ferill í þessu tilliti og við þurfum að sjá hver niðurstaðan þar verður,“ segir hún. „Við erum ekki öll með sjálfum okkur akkúrat núna.“