Rauða viðvörunin var góð æfing

13.03.2020 - 17:35
Mynd með færslu
 Mynd: burst.shopify.com
Rauða viðvörunin um daginn var ágætis æfing, segir Ægir Már Þórisson, forstjóri Advania á Íslandi. Þá unnu allir starfsmenn fyrirtækisins heiman frá sér. Á vinnustaðnum hefur verið gripið til ýmissa aðgerða til að varna því að starfsfólk smitist af COVID-19 eða smiti aðra. Spritt út um allt, ráðstafanir í mötuneyti og búið að skilgreina lykilstarfsmenn. Viðbrögð Advania eru líklega lýsandi fyrir viðbrögð margra stórra vinnustaða en fyrirtækið hefur þó ákveðna sérstöðu.

 

Fyrirtæki hefðu mátt vera betur undirbúin

Starfsmenn Advania vinnur að því að aðstoða aðra vinnustaði við að koma upp heimatengingum og fjarfundabúnaði svo fólk geti unnið heiman frá sér. Ægir segir að fyrirtæki hefðu mátt vera búin að stíga skref í þessa átt fyrr. Þá hefðu tæknifyrirtæki sloppið við holskefluna nú. „Það má kannski segja að samfélagið hafi aldrei verið eins vel undir það búið að lenda í því að mjög margir starfsmenn eru heima að vinna vegna þess að þú getur unnið ótrúlega mörg verkefni, bara við tölvuna heima hjá þér. Með lagalegum hætti geturðu undirritað samninga til dæmis, þú getur haldið fundi og þú getur verslað á netinu og annað slíkt. Þetta var náttúrulega, bara fyrir tíu, fimmtán árum, í hálfgerðu skötulíki. Svo má líka nefna það að nú eru búnar að vera kosningar hjá stéttarfélögum um verkföll, þetta hefur fólk geta gert heima hjá sér með því að skrá sig rafrænt inn á þar til bærar síður. VIð höfum í raun getað sinnt lýðræðislegum fúnksjónum án þess að þurfa að fara út úr húsi.“ 

Í þessum skrifstofuheimi, þá er ég ekki að tala um umönnunarstörf eða slíkt. Er eitthvað sem tæknin getur ekkert hjálpað við, þar sem fólk þarf bara að vera á staðnum?

„Já, maður er manns gaman, það er kannski helst það. Það kemur að mínu mati aldrei neitt í staðinn fyrir að setjast niður með einhverjum og tala við hann. Þetta er öðruvísi. Við missum þennan mannlega þátt út úr jöfnunni.“ 

Kæmi til greina að reyna að búa til einhvern félagslegan vettvang fyrir fólk, ef margir þurfa að vinna að heiman í lengri tíma? 

„Já, að ákveðnu leyti eru félagsleg samskipti komin inn á samfélagsmiðlana þannig að við erum ekki jafn einangruð og við hefðum verið fyrir einhverjum árum, áður en þeir komu til. Það að gera þetta með formlegri hætti væri vel hugsandi. 

Þannig að það væri kannski hægt að hvetja starfsfólk í heimasóttkví til þess að spjalla í nokkrar mínútur við annan vinnufélaga í heimasóttkví á Facetime til dæmis?

„Já, það er reyndar mjög góð hugmynd.“ 

Gekk vel í einn dag, spurning með margar vikur

 

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Advania á Íslandi.

 

Ægir segir Advania undir það búið að stór hluti starfsmanna vinni heiman frá sér. Það gera þegar nokkrir starfsmenn sem eru í sóttkví. „Þeir hafa ekki misst neitt úr, hafa getað sinnt sinni vinnu á fullu en við höfum búið þannig um hnútana að okkar starfsfólk, allir sem eru ekki beinlínis að gera við vélbúnað, þeir geta unnið heima. Við fengum í rauninni bara ágætis æfingu í því þegar rauða viðvörunin var gefin út fyrir einhverjum vikum síðan, það var í raun mjög áhugavert. Þá mætti enginn til vinnu. Við búum líka það vel að geta fylgst vel með þjónustubeiðnum og fólk skráir tímana sína og annað slíkt. Þennan dag gátum við ekki séð að afköst yrðu eitthvað minni þó fólk ynni heima. Það var reyndar bara einn dagur, ég veit ekki hvernig það yrði ef það yrði vika eða margar vikur. Svo höfum við farið vel yfir okkar krítísku kerfi, við erum búin að fara yfir það hvaða starfsfólk er algerlega nauðsynlegt til að halda ákveðnum hlutum gangandi og höfum svona tekið það út fyrir sviga, verið með sérstakt prógramm fyrir það fólk. Þetta er sirka fjörutíu til fimmtíu manna hópur. Við viljum vita vel og nákvæmlega hvort þau hyggja á ferðalög eða hvað þau eru að gera og annað slíkt, á þessu stigi erum við að undirbúa okkur fyrir það að þetta geti orðið verra.“

SJálfsagi mikilvægur í heimavinnu

Ægir starfaði áður sem mannauðsstjóra, hann segir nokkuð hafa verið rætt um það hjá Advania hvernig eigi að fara að því að vinna heima í lengri tíma. Það sé mikilvægt að halda rútínu, vakna á sama tíma og venjulega, fara í sturtu, klæða sig og beita sig ákveðnum aga, fara ekki að skúra eða setja í þvottavél á vinnutíma. „Fólk sem hefur lent í því að vinna heima í lengri eða skemmri tíma verða að beita sig svolitlum aga, freistast ekki til að fara að skúra eða setja í þvottavél eða eitthvað. Það mikilvægasta sem þú getur haft í huga er að vera eins nálægt þinni venjubundnu rútínu og þú mögulega getur, vaknar á sama tíma og venjulega, ferð í sturtu og gerir þessa hluti sem þú gerir venjulega áður en þú mætir til vinnu.“

Þá sé mikilvægt að koma sér upp vinnuaðstöðu, sem helst er ekki í svefnherberginu. 

Vinnustaðurinn þarf að standa sig

VInnustaðurinn þarf líka að gera sitt til að fólk hafi tök á að vinna heima. Fólk þarf búnað, fartölvur, heyrnartól og slíkt. Það þarf að geta tengst kerfunum sem vinnustaðurinn notar úr fartölvu heima með öruggum hætti í gegnum svokallaða VPN-tengingu og það þarf að geta tekið þátt í fundum og vinnustofum. Þetta er einmitt það sem Advania aðstoðar aðra vinnustaði með, heimatengingar og fjarfundabúnaður. Það er nóg að gera þessa dagana, mikil eftirspurn eftir þjónustu vegna COVID-19 faraldursins. „Já, við sjáum til dæmis aukningu í kaupum á fartölvum, skjáum og heyrnartólum og öllu því sem þarf til að geta almennilega sinnt vinnunni heiman frá sér, svo auðvitað líka í uppsetningu og ráðgjöf til fyrirtækja um leyfi og annað varðandi VPN-tengingar og slíkt. Það er í raun og veru bara mjög, mjög mikið að gera á því sviði og það eru að ákveðnu leyti pínulítil vonbrigði að við skulum lenda á þeim stað að það skuli vera brjálað að gera hjá öllum tæknifyrirtækjum landsns á akkúrat þessum tímapunkti. Það hefði verið hægt að gera heilan helling áður en oft er þetta svona, það þarf einhverja neyð til þess að koma manni af stað.“

Fyrirtæki tæknivæðast í snatri

Ægir býst við því að álagið eigi eftir að aukast frekar á næstu vikum. LJóset er þó að COVID-faraldurinn kann að verða til þess að fjöldi fyrirtækja taki stór skref til aukinnar tæknivæðingar í snatri og starfsfólk læri á hinn ýmsa fjarskiptabúnað. Stærstu tæknifyrirtæki heims hafa létt undir með vinnustöðum með því að bjóða fría áskrift að samskiptaforritum í þrjá til sex mánuði. 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi