Rannsókn varpar ljósi á kulnunarvanda hjúkrunarfræðinga

Mynd: rúv / rúv
Árið 2015 glímdi fimmtungur hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum við alvarleg kulnunareinkenni og svipað hlufall stefndi að því að hætta innan árs. Þetta er niðurstaða rannsóknar sem birtist í nýjasta tölublaði Tímarits um viðskipti og efnahagsmál. Einn rannsakenda telur ástandið hafa versnað síðan. Mannauðsstjóri Landspítalans segir meira bera á kulnun en áður, en að það sé líka meira gert til þess að sporna við henni. Einn liður í því er að minnka bein samskipti hjúkrunarfræðinga við sjúklinga.

Kulnun geti grafið undan öryggi og gæðum

Rannsóknin er samanburðarrannsókn. Sambærileg rannsókn var gerð árið 2002, þá fór mun minna fyrir kulnunareinkennum. Rannsakendur telja niðurstöðuna áhyggjuefni, enda hafi kulnun ekki bara neikvæð áhrif á líðan fólks heldur geti hún líka grafið undan öryggi sjúklinga og gæðum þjónustu á spítalanum. 

„Það eru ekki lengur toppar heldur viðvarandi álag“

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Jana Katrín Knútsdóttir, hjúkrunar- og viðskiptafræðingur.

Rannsóknin tók til allra hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Landspítalanum, helmingur þeirra svaraði spurningalistanum. Könnunin var lögð fyrir með sama hætti og árið 2002 og á sama tíma árs. Niðurstöður eiga því að vera sambærilegar. Jana Katrín Knútsdóttir, viðskipta- og hjúkrunarfræðingur og einn rannsakenda, á ekki von á því að ástandið hafi batnað á þeim fjórum árum sem eru liðin frá því hún sendi hjúkrunarfræðingum á spítalanum könnunina í tölvupósti. „Það má alveg reikna með því að aðstæðurnar séu jafnvel verri heldur en 2015 þegar rannsóknin var framkvæmd. Mönnunin er síst betri og álagið er alltaf að aukast. Það eru ekki lengur þessir toppar sem þekktust áður heldur er þetta viðvarandi álag.“ Jana Katrín kveðst þekkja nokkra hjúkrunarfræðinga sem nú séu frá vinnu vegna kulnunar. 

Kulnunarfaraldur? 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Á bráðamótttökunni.

Rannsóknin bendir til þess að kulnunareinkenni meðal hjúkrunarfræðinga hafi bæði orðið algengari og alvarlegri á þessu þrettán ára tímabili sem leið milli rannsókna. Árið 2015 reyndist einn af hverjum fimm hjúkrunarfræðingum vera með alvarleg kulnunareinkenni, árið 2002 átti það aðeins við um 6,4%. Það fjölgaði líka í hópi þeirra sem eru með miðlungs alvarleg einkenni kulnunar. Árið 2015 taldist helmingur hjúkrunarfræðinga þannig vera með miðlungs eða alvarleg einkenni kulnunar. Hlutfallið var 30% árið 2002. Svo er það sá hópur sem hyggst segja upp störfum innan árs, hann stækkaði mikið. Þetta átti við um rúm sautján prósent árið 2015 en rúm sjö prósent árið 2002. Það gæti tengst aldri svarenda, flestir þeirra voru í aldurshópnum 51-60 ára. Jana segir að ekki hafi verið spurt út í ástæður þess að fólk hugðist segja upp. 

Innri starfshvöt skýri starfsánægju

Mynd með færslu
 Mynd: rúv
Flestir hjúkrunarfræðingar segjast ánægðir í starfi.

Í ljósi þessarar neikvæðu þróunar er kannski þversagnakennt að starfsánægja hjúkrunarfræðinga minnkaði aðeins lítillega milli rannsóknanna, meginþorri segist ánægður í starfi sínu á spítalanum og ánægður með að vera hjúkrunarfræðingur. „Ég held að stór partur af því sé það sem kalla mætti innri starfshvöt hjúkrunarfræðinga, það er eitthvað annað sem drífur þig áfram í starfinu heldur en starfsaðstæðurnar.“ Stundum er talað um að hjúkrunarfræðingsstarfið sé köllun. 

Þjóðin eldist, stéttin eldist 

Áður en Jana Katrín hóf rannsóknina árið 2015 lagði hún fram rannsóknartilgátur, hún gat sér meðal annars til um að kulnunareinkenni væru orðin algengari meðal hjúkrunarfræðinga. En hvers vegna dró hún þá ályktun? Ástæðurnar sem hún nefnir eru margar, þjóðin er að eldast og fólkið sem liggur inn á legudeildum spítalans er veikara en áður. Stétt hjúkrunarfræðinga er líka að eldast. „Það eru færri og færri sem velja sér hjúkrun sem sitt ævistarf og þeir sem eru hjúkrunarfræðingar eru sífellt að leita í önnur störf.“

Mannekla ýtir undir kulnun

 

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Sjúklingar liggja á göngum bráðamóttöku.

Hvað er það helst sem stuðlar að kulnun meðal hjúkrunarfræðinga á Landspítalanum? Jana nefnir nokkra þætti. „Í þessari rannsókn erum við að beina sjónum okkar að starfsumhverfinu, við erum ekki að horfa á aðstæður einstaklingsins utan þess eins og margar aðrar rannsóknir hafa gert. Niðurstöður þessarar rannsóknar eru þær að það er fyrst og fremst mönnun, stuðningur og samskipti við stjórnendur sem skipta máli.“

Er eitthvað sem Landspítalinn getur bætt í sinni mannauðsstefnu, eitthvað sem er hægt að gera til að koma betur til móts við þá sem eiga á hættu að fá kulnunareinkenni eða eru með alvarleg einkenni kulnunar?

„Já, það er hægt. Það þarf að styðja stjórnendur í því að takast á við þessi vandamál, að koma auga á einkennin hjá sínum undirmönnum og geta stutt þá.“

Getur leitt til algerrar örmögnunar

Í skilgreiningu Alþjóðaheibrigðismálastofnunarinnar er kulnun í starfi sögð tilkomin vegna langvarandi streitu sem ekki næst stjórn á. Einkennin eru í meginatriðum þessi:

  • Óeðlileg og hamlandi þreyta.
  • Andleg fjarvera eða neikvætt viðhorf til starfsins.
  • Að finnast getan til að sinna starfinu fara dvínandi. 

Einkennin geta verið misalvarleg, alir finna einhvern tímann fyrir einhverjum einkennum kulnunar, en stundum verður hún svo alvarleg að fólk örmagnast algerlega og getur ekki unnið. Það getur tekið fólk sem brennur algerlega út langan tíma að ná sér og sumum finnst þeir aldrei ná sér að fullu. Það er því mikilvægt að grípa snemma inn í. 

Hafa áhyggjur af fleirum en hjúkrunarfræðingum

Ásta Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri mannauðsmála á Landspítalanum, segir að síðastliðin ár hafi farið að bera meira á kulnunarvanda á spítalanum. Það hafi líka verið gripið til aðgerða til að bregðast við honum.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Ásta Bjarnadóttir.

„Kulnun er fyrirbæri sem við verðum vör við og hefur verið að aukast. Ég held það sé hægt að fullyrða það. Á hinn bóginn má benda á að kulnun var ekki skilgreind alþjóðlega í fræðasamfélaginu fyrr en seint á síðustu öld þannig að það hefur verið mælt í tiltölulega stuttan tíma. Aukningin er örugglega til staðar en það er líka verið að átta sig á því hvað þetta þýðir.“

Ásta bendir á að kulnun er algengari meðal stétta sem eiga í miklum mannlegum samskiptum, til dæmis hjúkrunarfræðinga og kennara. „Vissulega er þetta eitthvað sem við höfum áhyggjur af, varðandi marga hópa, ekki bara hjúkrunarfræðinga heldur líka sjúkraliða og aðra sem eru í þessum beina mannlega þætti. Líka þeim sem vinna vaktavinnu eða vaktir ofan á sína dagvinnu, það á til dæmis við um flesta lækna. Þetta er vissulega áhyggjuefni í heilbrigðiskerfinu almennt, bæði hér á landi og á alþjóðavísu.“

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Vinna með kulnunareinkenni starfsfólks

Ásta segir Landspítalann hafa ráðist í aðgerðir til að fyrirbyggja kulnun eða vinna með kulnunareinkenni starfsfólks. „Það er margt í gangi hvað það varðar. Kulnun er andleg upplifu  og tengist svolítið því að hafa stjórn á sínum aðstæðum og búa við góða stjórnun í umhverfinu þannig að við höfum verið að vinna með gæði stjórnunar og samstarf stétta, aukna teymisvinnu þannig að fólk upplifi sig ekki eitt í heiminum heldur sé teymi sem er að vinna og grípur þig. Það er eitt og við sjáum vísbendingar um betri stjórnun. 

Margir nýti sér stuðningsteymi

Hún nefnir samskiptasáttmála sem var samþykktur árið 2018 og fræðslu sem boðið er upp á um vellíðan í vaktavinnu. „Hún gengur út á það að hjálpa fólki að þróa með sér fyrirbyggjandi aðferðir sem tengjast svefni, næringu og hreyfingu. Við erum líka í samstarfi við Virk - starfsendurhæfingu um fyrirbyggjandi úrræði fyrir fólk sem er í áhættu. Svo höfum við verið með stuðnings og ráðgjafarteymi innan spítalans sem er mannað af fagfólki. Þar getur starfsfólk fengið stuðning, bæði vegna vinnutengds álags og álags heima fyrir.“ Hún segir marga nýta þann kost. „Við höfum verið að auka við þá þjónustu.“

Hjúkrunarfræðingar umgangist sjúklinga minna

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Landspítalinn við Hringbraut.

 

Loks nefnir Ásta tilraunaverkefni um breytt starfsumhverfi í hjúkrun. „Það gengur út á breytt vinnufyrirkomulag og minni bundna viðveru við rúm sjúklings. Við vildum gjarnan sjá styttri vinnuviku hjá vaktavinnufólki enda er búið að stytta vinnuvikuna hjá mörgum öðrum hópum í samfélaginu en það hefur ekki náð inn í heilbrigðiskerfið.“ 

Veikindi eru trúnaðarmál

Ásta segist ekki geta tjáð sig um hversu margir starfsmenn spítalans séu í leyfi frá störfum vegna kulnunar. „Veikindi eru trúnaðarmál. Trúnaðarlæknirinn hjálpar okkur að vinna með þessi mál en við skráum ekki sérstaklega eðli veikinda sem valda fjarvistum frá störfum. Það er einfaldlega persónuverndarsjónarmið.“

En hver er þín tilfinning, þú hlýtur að hafa ákveðna yfirsýn. 

„Ég treysti mér ekki til þess að nefna neinar tölur í sambandi við það en auðvitað er þetta til staðar.“

Finnst þér þetta kulnunarvandinn hafa versnað eða batnað frá árinu sem rannsóknin var gerð, árinu 2015? 

„Árið 2015 vorum við ekki byrjuð á þessum tilraunaverkefnum sem miða að því að breyta vinnufyrirkomulagi hjúkrunarfræðinga en það er erfitt að segja.“

Ekki endilega meiri kulnunarhætta á bráðamóttökunni

Síðustu daga hefur mikið verið fjallað um álag á bráðamótttöku Landspítalans. Ásta segist ekki geta sagt til um hvort kulnunarhættan sé meiri þar en á öðrum deildum spítalans. „Það er líka álag að vera í fámennari hópi og bera ábyrgð einn. Þetta er margslungið og tengist aðstæðum á vinnustað, upplifun einstaklingsins af þeim aðstæðum og því hvaða bjargir hann hefur. Þetta er eitthvað sem þyrfti að skoða betur.“ 

Ekki ráðningarbann þrátt fyrir rekstrarvanda

Mannekla er eitt af því sem ýtir undir kulnunareinkenni, samkvæmt rannsókninni. Er hægt að bregðast við þeim vanda? „Eins og hefur komið fram í fjölmiðlum glímum við við mönnunarvanda, sérstaklega meðal hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða, og vissulega vildum við fjölga fólki en það er líka rekstrarvandi og því erfitt við það að eiga.“

Þið reynið sem sagt að gera ykkar besta innan þess ramma sem þið hafið, kannski ekki alltaf hægt að ráða fleira fólk?

„Já og við reynum að forgangsraða klínískri þjónustu og þessari þjónustu þar sem er mest álag þannig að þó að það sé rekstrarvandi þá er ekki ráðningarbann í klínískri þjónustu, alls ekki. VIð fyllum þær stöður sem losna og bætum jafnvel í eftir föngum en þar glímum við við framboð og eftirspurn og mönnunarvanda almennt í heilbrigðiskerfinu, bæði á landsvísu og alþjóðavísu líka.“ 

Fimmtíu prósent teljist gott svarhlutfall

Svarhlutfallið í rannsókn Jönu Katrínar og félaga var 50% og í rannsókninni segir að það sé nokkuð gott því það var allt þýðið undir, allir hjúkrunarfræðingar sem starfa á Landspítalanum. Flestir sem svöruðu voru komnir yfir miðjan aldur.

Gekk verr að ná til yngri hópsins eða er hann bara fámennari?

„Hann er líklega bæði fámennari og lætur sig málið jafn mikið varða og eldri kynslóðin sem hefur starfað lengur,“ segir Jana.