Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Rannsókn á hryðjuverkunum á frumstigi

14.11.2015 - 21:51
epa05025586 Paris Public Prosecutor Francois Molins holds a press conference regarding the 13 november attacks in Paris, France, 14 November 2015. Reports state that Molins said 129 people were killed in the 13 November terror attacks, and 352 people were
Francois Molins, ríkissaksóknari Frakklands. Mynd: EPA
Ódæðismennirnir sem myrtu hundrað 129 í sex skipulögðum árásum í París í gærkvöld létu til skarar skríða í þremur hópum. Þessu greindir Francois Molins, ríkissaksóknari Frakklands, frá á blaðamannafundi í kvöld.

Rannsóknin væri enn á frumstigi en hann segir að finna þurfi út hvaðan ódæðismennirnir voru og hvernig hryðjuverkin voru fjármögnuð. Molen staðfesti á fundinum að einn árásarmannanna hefði verið þrítugur franskur ríkisborgari sem vitað hafi verið að hefði verið orðinn öfgasinnaður. Hann ætti sakaferil að baki en hefði aldrei setið inni. Þessi maður hafi verið einn þeirra sjö árásarmanna voru felldir í aðgerðum lögreglu í gær. Þeir hafi allir verið þungvopnaðir og með sprengjubelti um sig miðja.

Íslamska ríkið hefur lýst ábyrgð á árásunum sem beindust að tónleikastaðnum Bataclan, þjóðarleikvangi Frakklands, veitingahúsum og börum. Á blaðamannafundinum kom jafnframt fram að þrír menn sem handteknir voru í Belgíu fyrr í dag tengist árásunum.

Belgíska lögreglan hóf í kvöld formlega hryðjuverkarannsókn vegna ódæðisverkanna í París. Húsleitir voru gerðar á nokkrum stöðum í Brussel síðdegis í dag. Breska ríkisútvarpið hefur eftir Charles Michel, forsætisráðherra Belgíu, að lögreglan reyni að finna út hvort einn þeirra sem handtekinn var nærri Brussel hafi verið í París í gærkvöldi.

Francois Hollande Frakklandsforseti sagði í dag að Íslamska ríkinu yrði ekki sýnd nein miskunn. Vegna þess að árásin hafi verið ofbeldisfull og óafsakanleg og Frakkar ætli að beita öllum lagalegum leiðum til að vinna gegn samtökunum.

Leiðtogi Hizbollah í Líbanon fordæmdi í kvöld hryðjuverkin í París. Hassan Nasrallah sagði í sjónvarpsávarpi að þetta væru óhæfuverk framin að liðsmönnum Íslamska ríkisins. Fyrr í dag fordæmdu einnig árásirnar forystumenn Hamas-samtakanna, og Heilags stríðs, sem eru á lista Vesturveldanna yfir hryðjuverkasamtök.

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV