Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rannsókn á Demókrötum tengd hernaðaraðstoð

epaselect epa07928144 Acting White House Chief of Staff Mick Mulvaney holds a news conference in the James Brady Press Briefing Room of the White House, in Washington, DC, USA, 17 October 2019. Mulvaney announced that US President Donald J. Trump will host the 46th G7 Summit at his Doral resort in Florida in 2020.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tilgangur Donalds Trumps með því að stöðva hernaðaraðstoð til Úkraínu að andvirði milljarða króna í sumar var meðal annars sá að þrýsta á Úkraínumenn að rannsaka ásakanir á hendur Demókrötum í kosningabaráttunni 2016. Þetta sagði Mike Mulvaney, starfsmannastjóri Hvíta hússins, á blaðamannafundi í gærkvöld. Hann dró þetta svo til baka seinna um kvöldið og sagði fjölmiðla hafa rangtúlkað orð hans.

Á fréttamannafundinum var Mulvaney spurður hvers vegna Trump hefði ákveðið að stöðva fyrirhugaða hernaðaraðstoð við Úkraínu í sumar. Sagði hann ástæðurnar margar og að forsetinn hefði sagt honum að Úkraína væri „spillingarbæli“ og að hann vildi ekki að ráðamenn þar létu bandaríska fjárhagsaðstoð „renna í eigin vasa.“ Þá hefði Trump mislíkað sú staðreynd að Evrópuríki veittu Úkraínu enga hernaðaraðstoð.

„Þetta voru aðal ástæðurnar,“ sagði Mulvaney, en bætti svo við: „Hefur hann líka einhvern tímann minnst á spillinguna í tengslum við vefþjón [Demókrataflokksins]? Vissulega. Engin spurning. En þar með er þetta upp talið. Þetta eru ástæðurnar fyrir því að við stöðvuðum greiðslurnar.“

Með spillingu í tengslum við vefþjón Demókrataflokksins vísaði Mulvaney til ítrekaðra ásakana um að Demókratar reki leynilegan vefþjón einhvers staðar í Úkraínu, og að það hafi verið Úkraínumenn en ekki Rússar sem hökkuðu sig inn í hann og reyndu að hafa áhrif á forsetakosningarnar 2016. Ekkert hefur komið fram sem rennir stoðum undir þessar ásakanir.

Alvanalegt í utanríkispólitík

Þegar fréttamenn bentu Mulvaney á, að með þessu væri hann í raun að tala um kaup kaups; hernaðaraðstoð gegn rannsókn á Demókrötum, sagði Mulvaney ekkert óvenjulegt við það, slíkt væri alvanalegt í utanríkispólitíkinni. Þar að auki hefðu þessi orð verið látin falla í tengslum við „yfirstandandi rannsókn í dómsmálaráðuneytinu.“ Bandaríska sjónvarpsstöðin CBS hefur hins vegar eftir ónefndum heimildarmanni í dómsmálaráðuneytinu að þar kannist enginn við að Hvíta húsið hafi stöðvað greiðslur til Úkraínu vegna einhverrar rannsóknar ráðuneytisins.

Mulvaney þvertók hins vegar fyrir að Trump hefði reynt að þrýsta á Úkraínumenn að rannsaka Joe Biden, mögulegan mótframbjóðanda Trumps í kosningunum á næsta ári.

Sakar fjölmiðla um nornaveiðar 

Nokkru eftir fréttamannafundinn lýsti Mulvaney því svo yfir að „fjölmiðlar [hefðu] ákveðið að rangtúlka ummæli [hans] til að styrkja hlutdrægar og pólitískar nornaveiðar gegn Trump. Svo ég tali alveg skýrt,“ sagði Mulvaney, „þá var nákvæmlega ekkert sem heitir kaup kaups varðandi hernaðaraðstoð til Úkraínu annars vegar og rannsókn á kosningunum 2016 hins vegar.“