Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Rannsaka Google vegna brota á einokunarlögum

01.06.2019 - 21:45
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur hafið undirbúning viðamikillar rannsóknar á Alphabet, móðurfélagi Google, vegna meintra brota á lögum gegn einokun og hringamyndun.

Þetta hefur Reuters eftir tveimur ónefndum heimildarmönnum. Talsmaður ráðuneytisins gat hvorki hafnað né staðfest að rannsókn væri í undirbúningi. Google hefur ekki viljað tjá sig um málið.

Embættismenn frá einokunardeild dómsmálaráðuneytinu og bandarísku neytendastofnuninni, sem fara með mál er varða brot á einokunarlögum, hafa fundað með starfsmönnum dómsmálaráðuneytisins vegna málsins á undanförnum vikum.

Rannsóknin er komin til vegna ásakana um að Google hafi hyglað eigin fyrirtækjum í niðurstöðum leitarvélar sinnar sem er sú vinsælasta í heimi.

Stjórn Donald Trump Bandaríkjaforseta hefur undanfarið sótt hart að tæknifyrirtækjum í landinu. Forsetinn hefur sakað samfélagsmiðlafyrirtæki og Google um að þagga niður í íhaldsmönnum á netinu.