Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ramminn í þingið í mars

04.03.2020 - 19:30
Mynd: Geir / RÚV
Mynd með færslu
 Mynd: Geir - RÚV
Orkustofnun hefur kynnt tólf nýjar virkjanahugmyndir fyrir fjórða áfanga rammaáætlunar. Umhverfisráðherra ætlar að mæla fyrir þingsályktunartillögu um þriðja áfanga áætlunarinnar á Alþingi á næstu vikum.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, ætlaði að mæla fyrir þingsályktunartillögu um þriðja áfanga rammaáætlunar um virkjanakosti í lok síðasta mánaðar en það gekk ekki eftir. Nú er gert ráð fyrir að ráðherra mæli fyrir málinu á Alþingi í mars.

Tvisvar sinnum hefur verið mælt fyrir þriðja áfanga rammaáætlunar. Lokaskýrsla um hann var tilbúin í ágúst 2016. Ekki hefur tekist að afgreiða tillöguna vegna stjórnarslita og Alþingiskosninga. Þrátt fyrir að þriðji áfangi rammaáætlunar sé ekki afgreiddur frá Alþingi er þegar farið að undirbúa fjórða áfanga.

Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Haukur Guðmundsson - RÚV
Sigöldustöð er ein þeirra virkjana sem Landsvirkjun vill stækka.

Orkustofnun hefur sent verkefnastjórn fjórða áfangans tólf hugmyndir að nýjum virkjunakostum og von er á fleiri hugmyndum í apríl, eftir að ítarlegri gögn um tillögurnar berast frá þeim sem vilja virkja. Tillögurnar eru nýjar í þeim skilningi að þær voru ekki til meðferðar í þriðja áfanganum.

Af þessum tólf hugmyndum sem þegar hafa borist eiga sex að beisla vindorku og geta framleitt samtals fimmhundruð sjötíu og tvö megavött af rafmagni. Sú stærsta - að Hnotasteini við Hófaskarðsveg sem liggur frá Kópaskeri austur í Þistilfjörð - á að geta framleitt hundrað og níutíu megavött.

Aðeins ein hugmynd er um jarðvarmavirkjun í Bolöldu, með hundrað megavatta framleiðslugetu. Tvær hugmyndir um nýjar vatnsafslvirkjanir eru kynntar til leiks, Súfnavatnavirkjun og Hamarsvirkjun.

Þá hefur Landsvirkjun hugmyndir um að stækka þrjár vatnsafslvirkjanir og auka framleiðslugetuna um samtals tvöhundruð og tíu megavött.

Hugmyndirnar eru eftirtaldar:

Staðsetning Tegund Afl [MW]
Skúfnavatnavirkjun Vatnsaflsvirkjun 16
Hamarsvirkjun Vatnsafslvirkjun 60
Vatnsfellsstöð Stækkun vatnsaflsvirkjunar um 55
Sigöldustöð Stækkun vatnsaflsvirkjunar um 65
Hrauneyjafossstöð Stækkun vatnsaflsvirkjunar um 90
Bolalda Jarðvarmavirkjun 100
Hnotasteinn Vindorkuvirkjun 190
Sólheimar Vindorkuvirkjun 151
Grímsstaðir Vindorkuvirkjun 134
Norðanvindur Vindorkuvirkjun 34
Þorvaldsstaðir Vindorkuvirkjun 45
Butra Vindorkuvirkjun