Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Rammgöldrótt lýsing á heimi á heljarþröm

Mynd: CC / CC

Rammgöldrótt lýsing á heimi á heljarþröm

14.03.2020 - 10:05

Höfundar

Í skáldsögunni Sælir eru einfaldir lýsir Gunnar Gunnarsson heimi á heljarþröm. Sagan kom út árið 1920 og gerist í Reykjavík árið 1918 á tímum spænsku veikinnar og Kötlugoss. Þar lýsir Gunnar glímu við stórar, tilvistarlegar spurningar í skugga drepsóttar og náttúruhamfara. „Þetta er verk sem ég held að við getum séð á nýjan hátt í hvert skipti sem við lesum það,“ segir ævisagnaritari Gunnars, Jón Yngvi Jóhannsson. Sagan var rifjuð upp að gefnu tilefni í Víðsjá.

Sælir eru einfaldir var þriðja skáldsagan í flokki svokallaðra kreppuskáldsagna sem Gunnar skrifaði á öðrum áratug síðustu aldar, eftir að hafa slegið í gegn með æskuverkinu, Saga Borgarættarinnar (1912-1914). Hinar skáldsögurnar eru Ströndin (1915), og Vargur í véum (1917). Í þessum verkum glímir Gunnar af alefli við tilvistarlegar spurningar í skugga fyrri heimsstyrjaldarinnar. Glíman er ekki síst til staðar í skáldsögunni Sælir eru einfaldir, sem kom eins og áður segir út á dönsku árið 1920 og naut strax mikilla vinsælda. Sagan var prentuð ellefu sinnum strax fyrsta árið eftir útgáfuna, þýdd árið eftir á þýsku, og tíu árum síðar á ensku, undir titilinum Seven Days' Darkness. Gagnrýnendur beggja vegna Atlantshafsins lofuðu bókina í hástert á sínum tíma, og kölluðu hana meðal annars „norrænt meistaraverk“. Sjálfur er Jón Yngvi Jóhannsson þeirrar skoðunar að Sælir eru einfaldir sé „rammgöldrótt verk,“ sem hefst með jarðskjálfta og fjallar um plágu. 

Öll átök tímans

Skáldsagan Sælir eru einfaldir var skrifuð að mestu leyti í smábænum Rapallo, rétt hjá Genúa, á Norður-Ítalíu. Í miðju atburða er læknirinn Grímur Elliðagrímur sem leggur nótt við dag til að líkna fólki, en bugast sjálfur fyrir rest, missir vitið. Í bakgrunni verksins og kveikja margra tilvistarspurninga verksins er hildarleikur fyrri heimsstyrjaldarinnar og það hrun evrópskrar menningar sem henni fylgdi. Gunnar hafði skömmu fyrir ritun bókarinnar ferðast um Evrópu og séð ásamt fjölskyldu sinni Þýskaland í rústum. „Hann fer með lest um Þýskaland og Sviss, þannig að hann sér Þýskaland í rústum fyrri heimsstyrjaldarinnar, sem verður þeim mikið áfall.“ Úr þessari reynslu vinnur Gunnar, bæði leynt og ljóst í skáldsögunni Sælir eru einfaldir. „Hann safnar í sig eins og safngler öllum átökum tímans.“

Sköpunarsaga með öfugum formerkjum

Í sögunni má finna fjölmargar vísanir í kristindóm og raunar önnur trúarbrögð. „Hún lýsir sjö dögum og er gegnumþrædd af tilvísunum í trúarbrögð. Þó að Gunnar sjálfur sé að glíma við heim án guðs á þessum tíma þá er hans andlega nesti kverið, Biblían og Biblíusögurnar.“ Jón Yngvi segir að verkið sé á vissan hátt sköpunarsaga á röngunni, sköpunarsaga með öfugum formerkjum. Í verkinu er Gunnar ekki að skapa heim, heldur eyða honum. „Hann lýsir því hvernig heimur einstaklings hrynur. Og þessi maður, þessi einstaklingur, er Grímur Elliðagrímur, virtur læknir í Reykjavík, sem eins og við fáum að vita strax í upphafi sögunnar, hefur brotnað undan álaginu og endar inni á Kleppi, að því er virðist firrtur vitinu.“

Melódramatískt lífsskoðunarverk

Jón Yngvi segir í ævisögu Gunnars, Landnámi, sem kom út árið 2011, að líta megi á Sælir eru einfaldir sem „melódramatískt lífsskoðunarverk þar sem tekist er á um grundvallarspurningar um mannlegt eðli og stöðu nútímamannsins í guðlausum og stundum að því er virðist gildislausum heimi.“ Heimurinn sé sannarlega á heljarþröm, lýst er sjö dögum af þéttu myrkri, köldum höndum dauðans. „Það eru náttúrlega dómsdagsmyndir þarna eins og með þennan eld í austrinu sem ríkir yfir sögusviðinu allan tímann. Og auðvitað mjög nöturlegar lýsingar á drepsóttinni. Við sjáum þetta allt í gegnum augu sögumanns sem heitir Jón og er vinur Gríms, og hann er líka sjálfboðaliði. Keyrir um bæinn með lækna og er sjálfur að hjúkra fólki. Lýsingin á spænsku veikinni sem Gunnar hlýtur að hafa fengið frá fólki sem hann talaði við þegar hann var á Íslandi sumarið 1919 eru mjög nöturlegar því þarna er fólk auðvitað að deyja í hrönnum, og það eru ömurleg húsakynni sem magna upp drepsóttina, ekkert hægt að gera nema líkna og hjúkra.“

Hrun evrópskrar menningar

Líkt og í hinum kreppusögunum frá öðrum áratug síðustu aldar fæst Gunnar við stóru spurningarnar í skáldsögunni Sælir eru einfaldir. Hann notar sögusviðið, drepsóttirnar og hörmungarnar til að magna upp aðstæður sem neyða sögupersónurnar til að horfast af alefli í augu við eigin tilvist, svara spurningum á borð við: Hverju við eigum að trúa í guðlausum og gildislausum heimi, hverju við eigum að treysta? „Og hann gerir það í skugga þessarar drepsóttar. En svo er náttúrlega stóra eyðan, eða stóra þögnin þarna á bakvið, auðvitað alltaf fyrri heimsstyrjöldin. Og þetta hrun evrópskrar menningar sem Gunnar upplifði sterkar en flestir aðrir íslenskir höfundar. Okkur er mörgum tamt að líta á höfunda eins og Stefan Zweig, og stóra evrópska höfunda sem lýstu því beinlínis hvernig Evrópumenningin hrundi í fyrri heimstyrjöldinni. Þegar við skoðum Íslandssöguna lítum við á 1918 og hugsum um frostavetur, spænsku veikina, en fyrst og fremst um upphaf, fullveldi, unga Ísland, upp með fánann. En fyrir Gunnari, sem er auðvitað búsettur í Danmörku, hluti af dönsku menningarlífi, þá eru þetta endalok.“

Sálarlíf og siðmenning

Jón Yngvi bendir á að Grímur Elliðagrímur er ekki eina söguhetjan í verkum Gunnars frá þessum tíma sem gengur af göflunum. Sálarlíf og siðmenning eru samofin í verkum hans frá þessum tíma. Heimsmyndin splúndrast, og mennirnir missa vitið. „Geðveiki er eitthvað sem getur skapast einfaldlega á einhvern röklegan, vitsmunalegan hátt. Þegar heimsmyndin brestur þá tapa menn vitinu.“ Hið sama megi sjá í verkum höfunda á borð við Henrik Ibsen, Agust Strindberg, og fleiri höfunda frá þessum tíma. „Það sem verður Grími Elliðagrími að falli er að hann hefur þá lífspeki að á meðan hægt sé að treysta einni manneskju þá sé maður hólpinn.“ En þá kemur höggormurinn til sögunnar, gamall vinur læknisins, sagnfræðingurinn Páll Einarsson, sem er hallur undir fremur einfaldaða útgáfu af heimspeki þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsches eins og hún var víða lesin á Norðurlöndum á þessum tíma, þar sem verk hans voru túlkuð út frá níhílisma sem hafnar öllum gildum og skilur menn eftir á berangri. Grímur velur þá útleið að treysta einni manneskju. „Og þegar síðan Páli tekst að grafa undan þessu trausti hans á eiginkonunni, Vigdísi, þá er allt glatað, og þá í raun og veru missir hann vitið.“  

Reykjavík ekki miðja íslenskrar menningar

Gunnar skrifaði Sælir eru einfaldir eins og áður segir í Miðjarðarhafsloftslagi  í bænum Rapallo, á Norður-Ítalíu. Sjálfur hafði hann ekki verið lengi í Reykjavík, þótt verkið sé sannarlega Reykjavíkursaga. Á sjö árum hafði Gunnar aðeins dvalið í Reykjavík samtals í um það bil einn mánuð á sjö ára tímabili, eins og fram kemur í ævisögunni, Landnámi. „Þetta er Reykjavíkursaga skrifuð af manni sem hefur ekki verið í Reykjavík nema í mesta lagi mánuð alla sína ævi. Fyrir okkur er Reykjavík svo sjálfsögð miðja íslenskrar menningar, hún var það ekki á þessum tíma. Gunnar þekkti Kaupmannahöfn miklu betur en Reykjavík.“ Og Jón minnir á að verkið hafi verið skrifað á sérkennilegum tíma í lífi Gunnars. „Hann er að skrifa þessi myrku tilvistarlegu verk á sama tíma og hann hefur sjálfur sennilega aldrei verið hamingjusamari. Þetta er svolítið kjaftshögg fyrir þá sem vilja skrifa ævisögur skálda, gamla hugmyndin um ævisögur skálda er sú að menn skrifi bölsýnisverk þegar þeim líður illa og síðan taki gleðin við þegar þeir eru hamingjusamir, þetta er öfugt hjá Gunnari.“

Fyrsta stórvirki Gunnars

Jón Yngvi er þeirrar skoðunar að Sælir eru einfaldir sé rammgöldrótt bók, og raunar fyrsta stórvirki Gunnars. „Hún var lengi lesin hérna heima, og kannski lengur en aðrar bækur frá þessum tíma. Núna hugsum við fyrst og fremst um Aðventu, Fjallkirkjuna, Svartfugl og Vikivaka, ég held að þessi bók komi fast á hælana á þeim.“ Gunnar hafi á þessum tíma verið orðinn þroskaður höfundur sem hafði á valdi sínu þróaða frásagnartækni sem gerði honum kleift að byggja söguna upp á strangan og úthugsaðan hátt. Bókin eigi erindi og ekki síst á okkar tímum. „Þetta er verk sem ég held að við getum séð á nýjan hátt í hvert skipti sem við lesum það. Núna, í ljósi þess að við erum sjálf að upplifa einhvers konar drepsótt, ég vona að hún verði ekki neitt í líkingu við það sem fólk upplifði árið 1918, eða Gunnar lýsir í bókinni, held ég að við getum strax séð í viðbrögðum okkar, í því hvernig við veljum að bregðast við, séð hluti hjá Gunnari sem eru býsna raunsæir. Það er þarna fólk sem kýs að loka sig af, verður ofboðslega sótthrætt, reynir sitt besta til að snúa á pestina, eins og mörg okkar eru að gera í dag.“ 

Rætt var við Jón Yngva Jóhannsson í Víðsjá. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

80 ár liðin frá útgáfu Aðventu