Rajapaksa segir af sér sem forsætisráðherra

15.12.2018 - 06:54
Mynd með færslu
 Mynd:
Mahinda Rajapaksa, sem þing Sri Lanka svipti völdum í vikunni, hyggst segja af sér forsætisráðherraembætti í dag, að sögn sonar hans, þingmannsins Namals Rjapaksa. Þetta gerir Mahinda til að tryggja stöðugleika, segir Namal á Twitter og bætir því við að faðir hans hyggist ávarpa þjóðina af þessu tilefni. Engin ríkisstjórn hefur verið starfandi í landinu síðustu tvær vikur og að óbreyttu hefði varla verið hægt að samþykkja fjárlög fyrir næsta ár áður en þetta rennur sitt skeið á enda.

Forseti Sri Lanka, Maithripala Sirisena, og leiðtogi meirihlutans á þjóðþinginu, Ranil Wickremesinghe, hafa tekist harkalega á um völdin í landinu að undanförnu. Wickremesinghe gegndi embætti forsætisráðherra landsins í krafti þingmeirihluta þar til forsetinn rak hann úr embætti hinn 26. október og skipaði forvera sinn á forsetastóli, fyrrnefndan Rajapaksa, í hans stað.

Wickremesinghe neitaði hins vegar að viðurkenna lögmæti þess gjörnings og hefur hvort tveggja neitað að flytja úr embættisbústað sínum og að viðurkenna Rajapaksa og stjórn hans sem réttmæt stjórnvöld í landinu.

Forsetinn dró lengi að kalla þingið saman eftir að hann greip til þessara aðgerða og boðaði hvort tveggja þingrof og nýjar, ótímabærar kosningar í janúar. Í vikunni komst hæstiréttur Sri Lanka að þeirri niðurstöðu að þessi gjörningur forsetans væri ólögmætur.

Í vikunni komst hæstiréttur Sri Lanka að þeirri niðurstöðu að þessi gjörningur forsetans væri ólögmætur. Svo virðist sem Sirisena ætli loks að láta sér segjast við þetta, því Rajapaksa boðaði afsögn sína eftir fund með forsetanum. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi