Rajapaksa nýr forseti Srí Lanka

17.11.2019 - 05:34
epa08001722 Sri Lanka's former Defense Secretary and presidential candidate Gotabaya Rajapaksa (C) leaves a polling station after casting his vote in Embuldeniya, on the outskirts of Colombo, Sri Lanka, 16 November 2019. Millions of registered voters cast their ballots during the country's presidential election.  EPA-EFE/STR
Gotabaya Rajapaksa, nýkjörinn forseti Srí Lanka, yfirgefur kjörstað eftir að hafa greitt atkvæði sitt Mynd: EPA-EFE - EPA
Gotabaya Rajapaksa, fyrrverandi varnarmálaráðherra Srí Lanka, vann sigur í forsetakosningunum sem þar fóru fram í gær. Helsti keppinautur hans, Sajith Premadasa, hefur þegar viðurkennt ósigur sinn og óskað Rajapaksa til hamingju með kjörið. Lokatölur hafa ekki verið birtar en talsmaður Rajapaksa fullyrti við fréttamann AFP í nótt að hans maður hefði fengið á milli 53 og 54 prósent atkvæða.

Umdeildur maður í forsetastól

35 voru í framboði en slagurinn stóð þó einungis milli þeirra Rajapaksa og  Premadasa. Forsetinn nýi er umdeildur maður í heimalandi sínu og raunar langt út fyrir landsteinana. Hann var varnarmálaráðherra í ríkisstjórn bróður síns þegar þúsundir Srí Lanka-manna, einkum Tamílar, hurfu sporlaust á árunum 2005 - 2015. Rökstuddur grunur er uppi um að rekja megi mannshvörfin til aðgerða stjórnvalda og að herinn hafi verið að verki.

Öryggið á oddinn hjá kjósendum

Rajapaksa er engu að síður eignaður drjúgur þáttur í því að binda enda á borgarastríðið sem þá geisaði og sá árangur virðist hafa komið honum vel í kosningabaráttunni. Hún er háð í skugga einhverrar verstu hryðjuverkaárásar sem gerð hefur verið á Srí Lanka, páskadagsárásunum fyrir rúmu hálfu ári. Þær árásir kostuðu 253 mannslíf og er einnig helsta ástæða þess að núverandi forseti, Maithripala Sirisena, ákvað að bjóða sig ekki fram.

Premadasa lagði mikla áherslu á það í sinni kosningabaráttu að honum væri engu síður treystandi til að tryggja öryggi landsmanna en hinn sjötugi Rajapaksa. Hét hann því strax í upphafi kosningabaráttunnar að skipa hershöfðingjann Sarath Fonseka sem yfirmann þjóðaröryggismála, næði hann kjöri. Fonseka þessum er öðrum fremur þakkaður sigurinn yfir Tamíltígrunum á sínum tíma.

Premadasa, eins og Rajapaksa, er tengdur fyrri forseta nánum fjölskylduböndum. Hann er sonur Ranasinghe Premadasa, þriðja forseta hins sjálfstæða Srí Lanka, sem Tamíltígrar myrtu árið 1993. Hann hefur síðustu ár gegnt embætti ráðherra húsnæðismála í ríkisstjórn Sirisenas forseta. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi